Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 001/2008

11.2.2008

Staðgreiðsla af arði til erlendra lögaðila

11. febrúar 2008
T-Ákv. 08-001

Að gefnu tilefni telur ríkisskattstjóri ástæðu til að árétta hvernig afdrætti staðgreiðslu skuli háttað við greiðslu arðs frá íslenskum hlutafélögum eða einkahlutafélögum til erlendra lögaðila.

Í 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að þeir aðilar sem hafa tekjur, þar með talinn söluhagnað, af íslenskum hlutabréfum, stofnbréfum eða öðrum réttindum til hlutdeildar í hagnaði eða af rekstri íslenskra fyrirtækja skuli greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Samkvæmt A-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, tekur staðgreiðsla samkvæmt lögunum til tekjuskatts aðila sem eru m.a. skattskyldir samkvæmt framangreindum 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Staðgreiðsla af arði til aðila með takmarkaða skattskyldu fer því samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda en ekki samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og skiptir þá einu hvort móttakandi arðsins er einstaklingur eða lögaðili.

Með 4. gr. laga nr. 76/2007, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum, var gerð breyting á 9. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt. Með breytingunni var lögaðilum sem bera takmarkaða skattskyldu samkvæmt 7. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt, og eru heimilisfastir í einhverju aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins heimilaður frádráttur sem nemur skattskyldum arðstekjum með sama hætti og innlendum félögum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2007 kemur fram að breytingin hafi í för með sér að lögaðilar með takmarkaða skattskyldu á Íslandi verða skattlagðir með sambærilegum hætti og innlendir lögaðilar í sama félagaformi.

Þegar framangreindar breytingar á 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 voru samþykktar á Alþingi voru hvorki gerðar breytingar á A-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, né ákvæðum 2. tölul. 70. gr. laga um tekjuskatt, þar sem fram kemur að tekjuskattur aðila sem um ræðir m.a. í 7. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt skuli vera 15%. Staðgreiðsla af arði til lögaðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi er því 15% burtséð frá því hvort viðkomandi lögaðili er með heimilisfesti á EES-svæðinu eður ei.

Eins og fyrr segir byggir staðgreiðsla af arði til lögaðila með takmarkaða skattskyldu á lögum nr. 45/1987 og kemur fram í 1. gr. laganna að hún sé bráðabirgðagreiðsla upp í álagningu. Tekjuskattsstofnar eru ákvarðaðir við álagningu opinberra gjalda og er almennt gert ráð fyrir að tekjuskattur sé ýmist of- eða vangreiddur við álagningu sem ræðst meðal annars af heimiluðum frádrætti frá tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns í álagningu enda er gert ráð fyrir að staðgreiðsla sé almennt innheimt án nokkurs frádráttar frá tekjum, sbr. A-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákvæði 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, er ekki meðal þeirra frádráttarliða tekjuskattslaga sem taka ber tillit til við ákvörðun launa og afdráttar í staðgreiðslu, sbr. 15. gr. laga nr. 45/1987. Óski erlendi lögaðilinn eftir að nýta heimild til arðsfrádráttar skv. 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, ber honum að telja arðinn fram hér á landi með sama hætti og innlendir lögaðilar, skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr., og færa móttekin arð til frádráttar arðstekjum. Afdregin staðgreiðsla fengist þannig endurgreidd við álagningu opinberra gjalda ár hvert.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum