Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 019/1999

12.11.1999

Fyrirspurn um skattlagningu við útborgun líftryggingar.

12. nóvember 1999 T-Ákv. 99-019 is

Með bréfi yðar, dags. 15. janúar 1999, farið þér þess á leit við embætti ríkisskattstjóra að embættið gefi álit sitt á skattskyldu líftryggingabóta.

Málavextir samkvæmt bréfi yðar eru þeir að Lífeyrissjóðurinn Framsýn hefur stofnað Séreignasjóðs Framsýnar vegna séreignasparnaðar af launum sjóðfélaga. Lífeyrissjóðurinn hefur í tengslum við séreignasparnað gert samning við Alþjóða líftryggingafélagið um hóplíftryggingu fyrir sjóðfélaga í Séreignasjóði Framsýnar Þannig getur sjóðfélagi í séreignasjóðnum óskað eftir líftryggingu þannig að hluta séreignasparnaðar er varið til kaupa á líftryggingu. Komi til útborgunar tryggingarinnar rennur hún inn á séreignarreikning sjóðfélagsins og greiðist út til lögerfingja eða bréferfingja eftir reglum séreignasjóðsins, sbr. einnig lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Fram kemur að lífeyrissjóðurinn líti svo á að líftryggingabætur sem kunna að renna inn á séreignarreikning sjóðfélaga séu ekki skattskyldar að því marki sem bæturnar eru umfram þau iðgjöld til séreignasparnaðar sem varið var til kaupa á tryggingunni auk ávöxtunar.

Samkvæmt 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,telst eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingafjár, eigi til skattskyldra tekna samkvæmt II. kafla laganna, enda séu þær ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Ríkisskattstjóri telur þetta ákvæði eigi ekki við um eignaauka sem kann að verða á séreignareikningi sjóðfélaga á grundvelli greiðslna úr líftryggingu. Í 6. tölul. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. b-lið l. gr. laga nr. 154/1998, er sérstaklega kveðið á um að vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða teljist til tekna sem lífeyrir skv. A-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þegar slíkar greiðslur eru greiddar út.

Telur ríkisskattstjóri eðlilegt að líta svo á að greiðslur úr líftryggingu inn á séreignarreikning séu í reynd ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt téðu ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. b-lið l. gr. laga nr. 154/1998. Þessi niðurstaða hefur með sama hætti í för með sér að iðgjald í séreignasjóð má færa til frádráttar skattskyldum tekjum samkvæmt 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 14/1997.

Sérstaklega er beðist velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu máls þessa.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum