Bindandi álit

Bindandi álit 2/2020

2.11.2020

Fyrirætlanir og forsendur:

Í beiðni álitsbeiðanda segir að álitsbeiðandi fyrirhugi útgáfu verðbréfa, sem gagnvart eiginfjárgrunni bankans flokkist til viðbótar eigin fjár þáttar 1, skv. 84. gr. b laga nr. 161/2002. Þá flokkun hafi Fjármálaeftirlitið staðfest í bréfi til bankans dagsettu 18. september 2018. Komi til útgáfu verðbréfanna verði þau skráð hjá verðbréfamiðstöð í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunar í París (OECD), í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), t.d. hjá Euroclear eða Clearstream.

Fram kemur að útgáfa verðbréfanna hafi verið í bígerð frá því á árinu 2018. Í bréfi dagsettu 14. desember 2018 hafi umboðsmaður álitsbeiðanda borið upp beiðni um bindandi álit ríkisskattstjóra í tilefni hinnar fyrirhuguðu útgáfu fyrir hönd álitsbeiðanda. Bindandi álit nr. 4/19 hafi verið veitt 4. apríl 2019. Álitsbeiðandi hafi ekki viljað una álitinu að öllu leyti og skaut þáttum þess til yfirskattanefndar með kröfu um að nefndin breytti álitinu með tilteknum hætti. Þeirri kröfu hafi nefndin hafnað í úrskurði nr. 26/2020, dagsettum 26. febrúar 2020.

Þá segir að bindandi álit ríkisskattstjóra miðist við málsatvik færð fram í álitsbeiðni og gildandi réttarreglur þegar álit er látið í té. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 91/1998 missi það hins vegar bindandi áhrif sin ef málsatvik verði önnur en álitið miðist við eða ef breyting er gerð á löggjöf sem tekur til atriða sem álitið byggist á, áður en hrundið er í framkvæmd þeim ráðstöfunum sem álitið lýtur að og bendir álitsbeiðandi á að ríkisskattstjóri hafi vakið athygli á þeim möguleika í bindandi áliti sínu nr. 4/19.

Í álitsbeiðni segir að málsatvik varðandi fyrirhugaða verðbréfaútgáfu álitsbeiðanda sé nú að öllu leyti þau sömu og færð voru fram í áðurnefndri álitsbeiðni 14. desember 2018, en bent er á að með 4. gr. laga nr. 33/2020 þar sem gerð var breyting á 49. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé aftur á móti raskað forsendum bindandi álits ríkisskattstjóra nr. 4/19 með þeim hætti að ætla verði að þættir í álitinu hafi misst bindandi áhrif sín eða þau fallið úr gildi. Á þeim grundvelli sé beiðni færð fram um nýtt bindandi álit ríkisskattstjóra miðað við sömu málsatvik og í fyrra áliti en breyttar réttarreglur sem til þeirra atvika taki. Meðfylgjandi álitsbeiðninni er afrit af fyrri álitsbeiðni og er vísað til málsatvikalýsingar í henni.

Breytt löggjöf:

Í álitsbeiðni eru álitaefni fyrri álitsbeiðni dagsettri 14. desember 2018 rakin sem og niðurstaða ríkisskattstjóra í bindandi áliti nr. 4/19. Dregin er sú ályktun að af orðalagi í niðurstöðu ríkisskattstjóra megi ráða að hann hafi talið umrædda vexti falla innan afmörkunar vaxtahugtaksins í lögum nr. 90/2003. Þá segir að ráða megi að ástæða þess að ríkisskattstjóri hafi ekki talið vextina frádráttarbæra í tekjuskattsskilum hafi verið að greiðsla þeirra væri valkvæð og er vísað í orðalags í meginmáli álitsins því til stuðnings. Þá segir:

„Sú almenna skilgreining rekstrarkostnaðar sem ríkisskattstjóri vísar til er sett fram í 2. mgr. 29. gr. laga nr. 90/2003 og endurtekin með dæmum í 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. sömu laga. Meðal dæma um rekstrarkostnað eru þar tilgreindir „vextir af skuldum“. Nánar er kveðið á um gjaldfærslu vaxta af skuldum í 49. gr. laga nr. 90/2003.

Með 4. gr. laga nr. 33/2020 var breyting gerð á 49. gr. laga nr. 90/2003. Aukið var við lagagreinina nýrri málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi: „skilyrtir vextir eru þá fyrst gjaldfæranlegir þegar skilyrði til greiðslu þeirra eru uppfyllt. Vextir sem skuldari hefur val um að greiða eða greiða ekki eru gjaldfæranlegir við greiðslu að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 1. tölul. 31. gr.“ Breytingin tók þegar gildi og skal koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2020 vegna tekna ársins 2019.

Af orðum hinnar nýju málsgreinar má ljóst vera að það eitt að greiðsla vaxta er valkvæð girðir ekki fyrir að vextirnir séu gjaldfæranlegir. Þá tekur ákvæðið af allan vafa um það á hvaða tímamarki slíkir vextir eru gjaldfæranlegir. Vextirnir eru gjaldfæranlegir við greiðslu.“

Þá er vísað til umfjöllunar um breytinguna í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 33/2020 sem og breytinga er gerðar voru á frumvarpinu í meðförum Alþingis. Er sérstaklega vísað til þess að í greinargerðinni sé fjallað um fyrrnefndan úrskurð yfirskattanefndar og vísað til þess að breytingin með frumvarpinu miðaði beinlínis að því að breyta þeirri skattalegu meðhöndlun sem ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd höfðu komist að niðurstöðu um. Þá komi fram að breytingunni sé m.a. ætlað að taka til vaxta af fjármálagerningum sem teljist til viðbótar eigin fjár þáttar 1 samkvæmt 84. gr. b laga nr. 161/2002. Þá er vísað til þess sem fram kemur í 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003 þar sem segi: „Gjöld samkvæmt þessari grein eru aðeins frádráttarbær að fullu séu þau tengd atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.“

Þá segir:

„Ekki leikur vafi á því að fyrirhuguð verðbréfaútgáfa Íslandsbanka hf. og greiðsla vaxta af þeim verðbréfum hafa beina tengingu við atvinnurekstur bankans. Með lögfestingu núgildandi 3. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003 tók löggjafinn af allan vafa um að skilyrðið telst uppfyllt við greiðslu vaxta, enda þótt greiðandi hafi átt val um hvort hann greiddi þá eða ekki. Hið almenna skilyrði rekstrarkostnaðar er því ótvírætt uppfyllt.“

Álitaefni:

Fram kemur að álitaefni miði við sömu málsatvik og í þeirri álitsbeiðni sem tekin var afstaða til með bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 4/19, en breytta lagaforsendu, og óski A hf. bindandi álits ríkisskattstjóra um álitaefnið:

  • Munu greiddir vextir af verðbréfum, sem hér að framan er greint frá að A hf. hyggst gefa út, verða gjaldfæranlegir í tekjuskattsskilum bankans?

Bindandi álit nr. 4/2019:

Samkvæmt fyrirliggjandi álitsbeiðni eru málsatvik þau sömu og tekin var afstaða til með bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 4/19. Í álitinu kemur eftirfarandi fram um fyrirhugaðar ráðstafanir:

„Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi fyrirhugi útgáfu verðbréfa, sem gagnvart eiginfjárgrunni bankans flokkist til viðbótar eiginfjárþáttar 1. Verðbréfin yrðu skráð hjá verðbréfamiðstöð í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), t.d. Euroclear eða Clearstream. Í tilefni fyrirhugaðrar verðbréfaútgáfu leitaði bankinn, með erindi dags. 31. júlí 2018, samþykkis Fjármálaeftirlitsins (FME) fyrir útgáfu slíkra verðbréfa. FME greindi í bréfi dags. 18. september 2018 frá því að athugun þess á útgáfulýsingunni væri lokið og það gerði ekki athugasemdir við hana. FME benti jafnframt á að athugun þess hefði einskorðast við ákvæði um eiginfjárgrunn, skv. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og reglna settra á grundvelli þeirra, og í athuguninni væri ekki lagt mat á útgáfulýsinguna með tilliti til annarra laga eða reglna. Í beiðninni er lögð upp sem gefin forsenda að verðbréf þau sem A fyrirhugar að gefa út teljist vera til viðbótar eigin fjár þáttar 1 í eiginfjárgrunni bankans, sbr. ákvæði laga nr. 161/2002. Með beiðninni fylgja drög að lýsingu verðbréfa þeirra sem fyrirhugað er að gefa út. Lýsingin ber yfirskriftina Terms and Conditions of the Securities og er um að ræða sömu lýsingu og lögð var fyrir FME.

Nánari lýsing á verðbréfunum:

Með beiðninni fylgir afrit af lýsingunni og er jafnframt gerð er grein fyrir þeim meginákvæðum sem gilda munu um verðbréfin en þau eru þessi:

  • Gjalddagi: Enginn gjalddagi höfuðstóls, þ.e. handhafi verðbréfs á ekki kröfu til endurgreiðslu höfuðstóls nema til slita bankans komi.
  • Kröfuröð: Kröfur samkvæmt verðbréfi ganga framar kröfum hluthafa en víkja fyrir skuldakröfum, þ.m.t. kröfum samkvæmt fjármagnsgerningum sem teljast til þáttar 2 í eiginfjárgrunni.
  • Valkvæð endurgreiðsla: Að uppfylltum skilyrðum, um gjaldfærni í kjölfar greiðslu og samþykki Fjármálaeftirlitsins, er bankanum heimilt að endurgreiða höfuðstól, að fullu eða að hluta, í fyrsta lagi að 5 árum liðnum frá útgáfu og síðan á 5 ára fresti.
  • Vextir: Fastir ársvextir á hverju 5 ára tímabili, til greiðslu einu sinni á ári. Vaxtaprósenta skal endurskoðuð á 5 ára fresti.
  • Vaxtagreiðslur: Heimild bankans til greiðslu vaxta er háð því að hann sé gjaldfær í kjölfar greiðslu, þ.e. fær um að efna fjárskuldbindingar sínar þegar þær falla í gjalddaga og að eignir séu umfram skuldir. Bankinn getur hverju sinni ákveðið að greiða ekki áfallna vexti eða greiða þá aðeins að hluta til. Vextir, sem bankinn ákveður að greiða ekki, falla niður, en geta ekki komið til greiðslu síðar.

Komi til vaxtagreiðslna af verðbréfunum verða þær inntar af hendi til verðbréfamiðstöðvar heimilisfastrar í aðildarríki OECD, EES eða EFTA, sem annast mun uppgjör þeirra.

A hf. beitir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna og samstæðureikninga, skv. heimild í 92. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og ber að fara eftir öllum ákvæðum staðlanna. Komi til þess að A hf. gefi út umrædd verðbréf verða þau í reikningsskilum flokkuð og færð sem fjárskuld (e. financial liability), en ekki sem eiginfjárgerningur (e. equity instrument), í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðalinn IAS 32 „Fjármálagerningar: framsetning“ (e. Financial Instruments: Presentation), sem leiddur var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1130/2007. Færsla verðbréfanna sem skuldar hefur verulega þýðingu fyrir þá sök að þau verða gefin út í erlendri mynt. Þannig munu áhrif gengisbreytinga á skuldina koma í rekstrarreikningi á móti áhrifum gengisbreytinga á þær eignir í sömu mynt sem fást munu að andvirði fyrir verðbréfin. Í samræmi við færslu verðbréfanna til skuldar verða vextir af þeim gjaldfærðir í reikningsskilum.“

Forsendur og niðurstaða ríkisskattstjóra:

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á fyrirkomulagi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þeirra sem eftir álitinu leitar. Álitaefnið þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðenda sjálfra.

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðenda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðenda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

Álitaefni snýst um hvort álitsbeiðanda verði heimilt í skattskilum sínum að gjaldfæra vexti af þeim verðbréfum sem fyrirhugað er að gefa út og þá á hvaða tímamarki. Einnig lúta álitaefnin að skyldum álitsbeiðanda til að halda eftir staðgreiðslu af greiddum vöxtum eða arði.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er tilefni fyrirliggjandi álitsbeiðni sú breyting sem gerð var á ákvæði 49. gr. laga nr. 90/2003 með 4. gr. laga nr. 33/2020, en álitsbeiðandi telur þá breytingu hafi raskað þeim forsendum sem lágu til grundvallar bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 4/2019, í máli álitsbeiðanda, með þeim hætti að þættir í álitinu hafi misst bindandi áhrif sín eða fallið úr gildi. Er meðal annars vísað til þess að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að framangreindum breytingalögum hafi m.a. verið vísað til bindandi álits ríkisskattstjóra frá 23. nóvember 2018 og úrskurð yfirskattanefndar nr. 95/2019 sem tilefni fyrir lagabreytingunni og tekið fram að með breytingunni hafi beinlínis verið stefnt að því að breyta þeirri skattalegu meðhöndlun sem ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd höfðu komist að niðurstöðu um, m.a. í fyrrgreindu máli álitsbeiðanda sem kært var til yfirskattanefndar. Sjá úrskurð nefndarinnar nr. 26/2020. Í almennum athugasemdum með framangreindu frumvarpi segir m.a.:

„Í úrskurðinum kemur fram að í núgildandi skattalögum séu ekki fyrir hendi sérstakar skilgreiningar sem komið geta að gagni við að draga mörk skulda og eiginfjárframlaga í einstökum tilvikum. Því geti verið vandasamt að leggja mat á það hvoru megin hryggjar blandaðir fjármálagerningar falli að þessu leyti þar sem oft hafi þeir í heild eða hluta einkenni bæði skuldar og eiginfjárframlags. Til að mynda getur verið um að ræða víkjandi lán án gjalddaga með skyldu eða heimild til að greiða vexti af höfuðstól. Þá getur verið um að ræða fjármálagerninga sem uppfylla skilyrði f-liðar 2. mgr. 84. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.“

Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 95/2019 sem vísað er til í framangreindum texta athugasemda við frumvarpið er fjallað um þau sjónarmið sem litið er til við mat á því hvort fjármálagerningur teljist til skuldar eða eiginfjárframlags og tekið fram að slíkt mat kunni að vera vandasamt þegar fjármálagerningur beri að ýmsu leyti svipmót hvors um sig líkt og á við svokallaða blandaða fjármálagerninga, sbr. 2. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, en þar sé getið sérstaklega fjármagnsgerninga sem fjármálafyrirtæki getur ákveðið einhliða að greiða vexti eða arð af með öðru en reiðufé eða eiginfjárgrunnsgerningum.

Skilsmunur skulda og eiginfjárframlaga er mikilvægur þar sem ólíkar reglur gilda um skattalega meðferð vaxta/arðs af slíkum ráðstöfunum. Þannig er eingöngu heimilt að færa til frádráttar vaxtagjöld af skuldum, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 5. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Við afmörkun þess hvort blandaður fjármálagerningur telst til eiginfjárframlags eða skuldar verður að leggja heildarmat á efni og einkenni viðkomandi gernings. Með framangreindum breytingalögum var ekki gerð breyting á takmörkun gjaldfærslu vaxtagjalda við vexti af skuldum, né var gerð breyting á skilgreiningu hugtaksins „skuld“. Í breytingunni felst að skilyrtir vextir séu þá fyrst gjaldfæranlegir þegar skilyrði til greiðslu þeirra séu uppfyllt. Þá segir að vextir sem skuldari eigi val um að greiða eða greiða ekki séu fyrst gjaldfæranlegir við greiðslu að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt. Um þetta segir í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar; 150. löggjafarþ. 2019-2020, þskj. 1057 -450. mál: „Frádráttarbær rekstrarkostnaður (4. gr.).

Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ný málsgrein bætist við 49. gr. tekjuskattslaga sem kveði á um tímamark þess hvenær skilyrtir vextir annars vegar og valkvæðir hins vegar teljast gjaldfæranlegir. Í umsögn Skattsins til nefndarinnar er m.a. bent á að orðalagið „að öðrum skilyrðum uppfylltum“ sé ekki nægilega skýrt og að betur færi á að skilgreina hvaða skilyrði átt er við. Meiri hlutinn fellst á þessa tillögu Skattsins og leggur til að í ákvæðinu verði vísað til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga.“ Ekki verður því fallist á annan skilning en að einungis sé verið að kveða á um tímamark gjaldfærslu þeirra vaxta af skuldum sem uppfylli þau skilyrði að vera frádráttarbærir skv. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga. Það eitt að í skilmálum fjármálagernings sé kveðið á um að vextir séu skilyrtir eða skuldari hafi val um að greiða þá eða ekki leiðir ekki eitt og sér ekki til þess að gerningurinn teljist til skuldar og að skilyrði ákvæðis 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt til gjaldfærslu séu uppfyllt. Samkvæmt því verður enn sem áður að leggja sérstaklega mat á það hvort fjármálagerningur teljist skuld eða eiginfjárframlag því líkt og að framan er rakið er eingöngu heimilt að færa vexti af skuldum til gjalda skv. 1. mgr. 49. gr. tekjuskattslaga sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, þ.e. að heimilt sé að draga rekstrarkostnað frá tekjum sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Líkt og kom fram í úrskurði yfirskattanefndar nr. 26/2020 um kæru álitsbeiðanda á bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 4/19 hefur um langan aldur verið rótfastur skilningur í íslenskum rétti að það sé hugtakseinkenni skuldabréfs að um sé að ræða einhliða og skilyrðislausa skyldu til greiðslu peninga. Sú skilgreining er reyndar ekki takmörkuð við íslenskan rétt. Í úrskurðinum er tekið undir það með ríkisskattstjóra að við mat á því hvort fjármálagerningur teljist til skuldar eða eiginfjárframlags hafi það þýðingu hvernig háttað sé skuldbindingu útgefanda fjármálagernings til endurgreiðslu fjár, eftir atvikum höfuðstóls eða vaxta. Sé um skuld að ræða á lánveitandi venjulega rétt á reglulegum vöxtum og getur iðulega endurheimt fjárfestingu sína að ákveðnu tímabili liðnu. Réttur hans er almennt fyrir hendi án tillits til afkomu félags. Eiginfjárframlög eru almennt því marki brennd að ekki er fyrir hendi réttur til að endurheimta fjárfestinguna fyrr en félagið er leyst upp og áhættan er almennt takmörkuð við þá fjárhæð sem innt var af hendi eða samþykkt var að inna af hendi. Af því leiðir að félag sem fjármagnar sig með eigin fé í stað lánsfjár hefur rýmra fjárhagslegt svigrúm í rekstrinum til vaxtar þar sem eiginfjárframlög leiða ekki af sér kostnað sem þarf að mæta óháð afkomu af rekstrinum, ólíkt því sem almennt á við um skuldir.

Sé um blandaða fjármálagerninga að ræða kann að vera vandasamt að leggja mat á það hvoru megin hryggjar fjárfesting fellur, líkt og fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar nr. 95/2019. Sá vandi við mat er enn fyrir hendi þrátt fyrir breytingu á 49. gr. laga um tekjuskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 33/2020. Eftir sem áður verður að leggja heildarmat á efni og einkenni fjármálaafurðarinnar sem um ræðir. Líkt og rakið er í álitsbeiðni var bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 4/2019 kært til yfirskattanefndar sem kvað upp úrskurð nr. 26/2020 í máli kæranda. Í forsendum úrskurðarins segir m.a.:

„Ljóst er að fjármálagerningar sem um er deilt í málinu myndu teljast „varanlegir“ í skilningi f-liðar 2. mgr. 84. gr. b laga nr. 161/2002 þar sem þeir eru án fyrirfram ákveðins gjalddaga eða innlausnardags. Þá verður að leggja til grundvallar að á kæranda hvíli engin skylda til endurgreiðslu höfuðstóls eða kaupverðs bréfanna, nema til slita komi, eins og tekið er fram í álitsbeiðni kæranda, sbr. hér ákvæði g- og h-liðar fyrrgreinds ákvæðis laga nr. 161/2002. Að sama skapi hvílir engin skylda á kæranda til greiðslu vaxta af bréfunum á umsömdum vaxtagjalddögum svo sem fram kemur í álitsbeiðni, sbr. og ákvæði skilmálanna undir yfirskriftinni „Cancellation of Interest“ þar sem þetta kemur fram, en auk þess liggur fyrir að greiðsla vaxta sætir frekari takmörkunum sem lúta að afkomu bankans á hverjum tíma. Þá er til þess að líta að komi til svonefnds kveikjuviðburðar (e. Trigger Event) eftir útgáfu bréfanna hefur það í för með sér að útgefandi bréfanna getur með bindandi hætti fært niður höfuðstól þeirra án samþykkis bréfhafa, og eftir atvikum einnig hækkað höfuðstól bréfanna á ný, eftir reglum sem raktar eru á bls. 10-13 í skilmálunum („Write Down and Write Up“), en með kveikjuviðburði væri þá einkum átt við breytingar á eiginfjárgrunni bankans niður fyrir tiltekin mörk. Því gæti komið til þess að útgefandi þurfi ekki að láta nokkurt fé af hendi.

Þegar litið er til þess, sem hér að framan er rakið, og að virtum skilmálum hinnar fyrirhuguðu verðbréfaútgáfu kæranda að öðru leyti verður að fallast á með ríkisskattstjóra að umræddir fjármálagerningar hafi slík einkenni eiginfjárframlags að þeir verði ekki taldir til skuldar í skilningi 1. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 483/1994, þannig að vaxtagjöld af þeim séu frádráttarbær frá tekjum kæranda á grundvelli umræddra ákvæða.“

Í þeirri álitsbeiðni sem nú er til afgreiðslu kemur fram að hún miðist við sömu málsatvik og rakin eru í álitsbeiðni dagsettri 14. desember 2018, sbr. fyrrgreint bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 4/2019 og úrskurð yfirskattanefndar nr. 26/2020. Framangreind lýsing í niðurstöðukafla úrskurðar yfirskattanefndar á því enn við vegna þeirrar fjármálaafurðar sem álitsbeiðnin varðar. Sú breyting sem gerð var á ákvæði 49. gr. laga nr. 90/2003 um heimild til gjaldfærslu vaxta af skuldum breytir því ekki að sú fjármálaafurð sem hér um ræðir hefur slík einkenni eiginfjárgernings að hún verði ekki talin til skuldar líkt og fram kemur í niðurlagi úrskurðar yfirskattanefndar nr. 26/2020, sbr. og það sem rakið hefur verið um mismun eiginfjárgerninga og skulda almennt séð.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þess álitaefnis sem sett er fram í álitsbeiðninni:

  • Greiddir vextir af þeim verðbréfum sem fyrirhugað er að gefa út eru ekki frádráttarbærir í tekjuskattsskilum bankans.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum