Bindandi álit

Bindandi álit 4/2019

4.4.2019


Bindandi álit staðfest með úrskurði Yfirskattanefndar nr. 26/2020.

Fyrirhugaðar ráðstafanir:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi fyrirhugi útgáfu verðbréfa, sem gagnvart eiginfjárgrunni bankans flokkist til viðbótar eiginfjárþáttar 1. Verðbréfin yrðu skráð hjá verðbréfamiðstöð í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), t.d. Euroclear eða Clearstream. Í tilefni fyrirhugaðrar verðbréfaútgáfu leitaði bankinn, með erindi dags. 31. júlí 2018, samþykkis Fjármálaeftirlitsins (FME) fyrir útgáfu slíkra verðbréfa. FME greindi í bréfi dags. 18. september 2018 frá því að athugun þess á útgáfulýsingunni væri lokið og það gerði ekki athugasemdir við hana. FME benti jafnframt á að athugun þess hefði einskorðast við ákvæði um eiginfjárgrunn, skv. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og reglna settra á grundvelli þeirra, og í athuguninni væri ekki lagt mat á útgáfulýsinguna með tilliti til annarra laga eða reglna. Í beiðninni er lögð upp sem gefin forsenda að verðbréf þau sem C banki fyrirhugar að gefa út teljist vera til viðbótar eigin fjár þáttar 1 í eiginfjárgrunni bankans, sbr. ákvæði laga nr. 161/2002. Með beiðninni fylgja drög að lýsingu verðbréfa þeirra sem fyrirhugað er að gefa út. Lýsingin ber yfirskriftina Terms and Conditions of the Securities og er um að ræða sömu lýsingu og lögð var fyrir FME.

Nánari lýsing á verðbréfunum:

Með beiðninni fylgir afrit af lýsingunni og er jafnframt gerð er grein fyrir þeim meginákvæðum sem gilda munu um verðbréfin en þau eru þessi:

  • Gjalddagi: Enginn gjalddagi höfuðstóls, þ.e. handhafi verðbréfs á ekki kröfu til endurgreiðslu höfuðstóls nema til slita bankans komi.
  • Kröfuröð: Kröfur samkvæmt verðbréfi ganga framar kröfum hluthafa en víkja fyrir skuldakröfum, þ.m.t. kröfum samkvæmt fjármagnsgerningum sem teljast til þáttar 2 í eiginfjárgrunni.
  • Valkvæð endurgreiðsla: Að uppfylltum skilyrðum, um gjaldfærni í kjölfar greiðslu og samþykki Fjármálaeftirlitsins, er bankanum heimilt að endurgreiða höfuðstól, að fullu eða að hluta, í fyrsta lagi að 5 árum liðnum frá útgáfu og síðan á 5 ára fresti.
  • Vextir: Fastir ársvextir á hverju 5 ára tímabili, til greiðslu einu sinni á ári. Vaxtaprósenta skal endurskoðuð á 5 ára fresti.
  • Vaxtagreiðslur: Heimild bankans til greiðslu vaxta er háð því að hann sé gjaldfær í kjölfar greiðslu, þ.e. fær um að efna fjárskuldbindingar sínar þegar þær falla í gjalddaga og að eignir séu umfram skuldir. Bankinn getur hverju sinni ákveðið að greiða ekki áfallna vexti eða greiða þá aðeins að hluta til. Vextir, sem bankinn ákveður að greiða ekki, falla niður, en geta ekki komið til greiðslu síðar.

Komi til vaxtagreiðslna af verðbréfunum verða þær inntar af hendi til verðbréfamiðstöðvar heimilisfastrar í aðildarríki OECD, EES eða EFTA, sem annast mun uppgjör þeirra.

C banki hf. beitir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna og samstæðureikninga, skv. heimild í 92. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og ber að fara eftir öllum ákvæðum staðlanna. Komi til þess að C banki hf. gefi út umrædd verðbréf verða þau í reikningsskilum flokkuð og færð sem fjárskuld (e. financial liability), en ekki sem eiginfjárgerningur (e. equity instrument), í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðalinn IAS 32 „Fjármálagerningar: framsetning“ (e. Financial Instruments: Presentation), sem leiddur var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1130/2007. Færsla verðbréfanna sem skuldar hefur verulega þýðingu fyrir þá sök að þau verða gefin út í erlendri mynt. Þannig munu áhrif gengisbreytinga á skuldina koma í rekstrarreikningi á móti áhrifum gengisbreytinga á þær eignir í sömu mynt sem fást munu að andvirði fyrir verðbréfin. Í samræmi við færslu verðbréfanna til skuldar verða vextir af þeim gjaldfærðir í reikningsskilum.

Álitaefni:

Í beiðninni kemur fram að þau verðbréf sem C banki hf. hyggist gefa út beri bæði með sér viðmót skuldabréfa og hlutabréfa. Álitaefnið sé hvort vextir samkvæmt ákvæðum verðbréfanna skuli í skattalegu tilliti meðhöndlast sem vextir eða arður. Álitaefni lúti annars vegar að því hvort C banka hf. verði heimilt í skattskilum sínum að gjaldfæra vexti af verðbréfunum og þá á hvaða tímamarki. Hins vegar lúta álitaefni að skyldum C banka hf. til að halda eftir skatti af staðgreiðslu af greiddum vöxtum.

Með vísan til framangreinds óskar álitsbeiðandi eftir svörum ríkisskattstjóra við eftirfarandi spurningum:

  1. Munu vextir af umræddum verðbréfum verða gjaldfæranlegir í tekjuskattsskilum C banka hf.?
  2. Ef svar við 1. álitaefni er jákvætt, á hvaða tímamarki skal þá gjaldfæra vextina, þegar þeir eru áfallnir, þegar ljóst er að til greiðslu þeirra muni koma eða þegar þeir eru greiddir?
  3. Hvort skal C banki hf., við greiðslu vaxta af umræddum verðbréfum, haga afdrætti skatts í staðgreiðslu eftir þeim lagaákvæðum sem gilda um vaxtagreiðslur eða arðgreiðslur?
  4. Ef svar við 3. álitaefni er að haga skuli afdrætti skatts í staðgreiðslu eftir lagaákvæðum um vaxtagreiðslur, munu þá vaxtagreiðslur til rétthafa heimilisfastra utan Íslands falla undir þá undanþágu frá skattskyldu sem felst í ákvæðum 3. og málsl. 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt?

Rökstuðningur álitsbeiðanda:

Álitsbeiðandi bendir á að bankinn beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna og samstæðureikninga, skv. heimild í 92. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og beri að fara eftir öllum ákvæðum staðlanna. Komi til þess að umrædd verðbréf verði gefin út verði þau í reikningsskilum flokkuð og færð sem fjárskuld, en ekki sem hluti af eigin fé, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðalinn IAS 32, sem leiddur var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1130/2007. Færsla verðbréfanna sem skuldar hafi verulega þýðingu þar sem þau verða gefin út í erlendri mynt. Í samræmi við færslu verðbréfanna til skuldar verði vextir af þeim gjaldfærðir í reikningsskilum.

Um fyrsta álitaefni:

Í álitsbeiðninni segir að vextir sem falla til af verðbréfunum muni fela í sér útgjöld í atvinnustarfsemi C banka hf. og falli sem slíkir undir almennt rekstrarkostnaðarhugtak, skv. 2. mgr. 29. gr. og 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt (tsl). Engin áhöld séu um að vaxtagjöld af skuldum falli undir rekstrarkostnaðarhugtak tekjuskattslaganna og séu gjaldfæranleg í tekjuskattsskilum þeirra sem atvinnurekstur hafi með höndum, enda tengist vaxtagjöldin atvinnurekstrinum.

Þá segir að hugsanlegt sé að samningsvextir af fjármálagerningum sem liggja á mörkum skuldar og eigin fjár falli hvorki undir vexti né hugtakið arð, eins og þau hugtök eru skilgreind í lögum nr. 90/2003. Ef svo er, ráðist álitaefnið um gjaldfærslu af því hvort slíkir vextir falli undir hina almennu skilgreiningu rekstrarkostnaðar, þ.e. gjalda til öflunar, viðhalds og tryggingar tekna í atvinnurekstri.

Undir hugtakið vaxtagjöld í 49. gr. tsl. falli vextir af skuldum, jafnt föstum sem lausum, og bæði samningsvextir og vanskilavextir. Undir hugtakið falli ekki einvörðungu vextir í þröngri merkingu heldur einnig kostnaður sem fylgir lántöku og umlíðun láns. Undir hugtakið falli verðbætur, bæði á höfuðstól og vexti. Sama eigi við um vexti af stofnsjóðsinnistæðum í gagnkvæmum vátryggingar- og ábyrgðarfélögum, kaupfélögum, samvinnufélögum og samvinnufélagasamböndum. Vaxtahugtakið einskorðist þannig ekki við vaxtagreiðslur af skuldum, heldur geti það einnig náð yfir vexti af sjóðum sem flokkast meðal eigin fjár greiðanda. Hugtakið vaxtagjöld eigi sér spegilmynd í hugtakinu vaxtatekjur, sem skilgreint er í 8. gr. tsl. Undir það hugtak falli vextir í víðri merkingu, þ.m.t. happdrættisvinningar sem greiddir eru í stað vaxta og gengishækkun hlutdeildarskírteina.

Þá er vikið að arðgreiðsluhugtakinu og skilgreiningu þess í 11. gr. tsl. Almenn skilgreining sé að til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum með takmarkaðri ábyrgð eigenda teljist sérhver afhending verðmæta til hluthafa sem teljast vera tekjur af hlutareign þeirra. Undir arðshugtakið falli einnig úthlutun fjármuna til hluthafa við slit félags eða lækkun hlutafjár þess, að því marki sem úthlutun er umfram kaupverð í hendi hluthafa. Arðshugtakið sé þó þrengt verulega frá hinni almennu skilgreiningu, því ef úthlutun verðmæta til hluthafa sé óheimil skv. hlutafélagalöggjöfinni þá teljist hún ekki vera arður heldur laun eða gjöf eftir atvikum.

Arðshugtak tekjuskattslaganna einskorðist við greiðslur sem inntar séu af hendi á grundvelli hlutafjáreignar, en nái ekki til greiðslna á grundvelli eignarhalds á annars konar fjármálagerningum og það eins þótt þá fjármálagerninga mætti flokka meðal eigin fjár viðkomandi félags. Því síður geti arðshugtakið náð til greiðslna af fjármálagerningum sem flokka beri meðal skulda.

Af samanburði vaxtahugtaks og arðshugtaks tsl. megi ljóst vera að vaxtahugtakið sé mun víðtækara. Því verði að ætla að leiki vafi á undir hvort hugtakið vextir af umræddum verðbréfum falli, beri fremur að fella þá undir vaxtahugtakið. Sú ályktun eigi sér fordæmi í bindandi álitum ríkisskattstjóra nr. 2/01 og 3/07. Ekki sé þó óyggjandi um fordæmisgildi álitanna gagnvart þeim álitaefnum sem borin eru upp í álitsbeiðni þessari. Þrátt fyrir að bindandi álit nr. 2/01 lúti að vöxtum af verðbréfum, sem ætlað var að mynda þátt í eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, er hvort tveggja að atvik eru ekki að öllu leyti hin sömu og að löggjöf um eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækja hefur verið breytt frá því að álitið var gefið út.

Í báðum framangreindum álitum sínum hafi ríkisskattstjóri lagt áherslu á að arðgreiðslur í skilningi tsl. væru bundnar við eignaraðild að félagi. Í bindandi áliti 2/01 segi m.a.:

Þannig virðist ákvæði 9. gr. um arð ganga út frá þeirri forsendu að arður geti einungis verið til staðar þegar um er að ræða eignarhlutdeild í félagi og þannig er sá eignarhluti forsenda þess að um arðstekjur geti verið að ræða. Það að eiga kröfu á hendur félagi verður ekki talið eignarhlutdeild í þessu sambandi heldur einungis raunverulegur eignarhlutur, þ.e. eignarhlutur sem fylgja þau réttindi sem slíkum hlutum fylgir lögum samkvæmt, sbr. einkum lög nr. 2/1995, um hlutafélög.

Í bindandi áliti 3/07 segir:

Í ákvæðum þessum er sá skilsmunur vaxta- og arðstekna, að vaxtatekjur ná til allra tekna af peningalegum eignum, en arðstekjur eru bundnar við tekjur af hlutareign í hlutafélögum, einkahlutafélögum og samlagshlutafélögum. Um arðstekjur í þessum skilningi getur því aðeins verið að ræða að tekjurnar grundvallist á eignaraðild. Slíkar tekjur geta því ekki öðrum fallið til en þeim er teljast til hlutahafa, skv. lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Fram kemur að umræddum verðbréfum útgefnum af C banka muni ekki fylgja réttindi sem almennt fylgi eignarhlut í félagi, svo sem tillögurétt og atkvæðisrétt á hluthafafundum, forgangsrétt til áskriftar við hlutafjárhækkun, forkaupsrétt á fölum hlutum, innlausnarrétt hluta og rétti til að krefjast dóms um slit félags.

Til að greiðslur félaga til hluthafa falli undir arðshugtak tsl. þurfi þær að uppfylla form- og efnisskilyrði hlutafélagalöggjafarinnar um arðgreiðslur eða eftir atvikum um endurgreiðslur vegna lækkunar hlutafjár eða við slit. Aðeins sé á færi hluthafafundar að ákveða arðgreiðslur. Ákvörðunarvald hverju sinni, um hvort greiddir verði áfallnir vextir af fyrirhuguðum verðbréfum útgefnum af C banka hf., verði í höndum stjórnar bankans. Heimild hlutafélags til útgreiðslu arðs sé bundin við útgreiðslu af frjálsum sjóðum félagsins, skv. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 2/1995. Vaxtagreiðslur af umræddum verðbréfum verði ekki bundnar við frjálsa sjóði C banka hf.

Þá er aftur vikið að því í beiðninni að það geti komið til þess að vextir af umræddum verðbréfum, áfallnir á afmörkuðu vaxtatímabili, verði ekki greiddir eða aðeins greiddir að hluta. Annað hvort sökum skilmála um að greiðsla viðkomandi vaxta sé bankanum óheimil að virtu gjaldþoli hans, eða vegna þess að bankinn nýti heimild í skilmálum til ákvörðunar um að greiða ekki það sinnið vexti eða greiða vextina aðeins að hluta til. Þrátt fyrir þessa skilmála geri bankinn ráð fyrir að jafnan komi til greiðslu áfallinna vaxta og að það muni heyra til algjörra undantekninga í neyð að vextir verði ekki greiddir. Ástæða þess er að það hefði veruleg neikvæð áhrif á möguleika bankans til fjármögnunar og á starfsemi hans, ef vextir yrðu ekki greiddir af verðbréfum þessum. Í því sambandi er tekið fram að ef ekki kæmi til greiðslu áfallinna vaxta einhverju sinni bæri bankanum að birta opinberlega upplýsingar þar um, skv. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Af sömu ástæðu geri C banki ráð fyrir að endurgreiða höfuðstól umræddra verðbréfa eftir því sem heimildir og forsendur standa til hverju sinni, þ.m.t. samþykki FME.

Þá er vikið að því að lög nr. 90/2003 hafi ekki að geyma skilgreiningu á hugtakinu skuld. Eignir, skuldir og eigið fé atvinnufyrirtækja skuli í skattskilum færast með sama hætti og í reikningsskilum. Minnt er á leiðbeiningar ríkisskattstjóra um gerð skattframtala rekstraraðila. Til leiðréttinga á reikningsskilum geti því aðeins komið ef tekjuskattslög mæli fyrir um meðhöndlun á annan veg en í reikningsskilum. Hvað skuldir varðar sé þörf á leiðréttingum við framtalsgerð hafi í reikningsskilum verið skuldfærð; eftirlaunaskuldbinding, tekjuskattsskuldbinding, ófrádráttarbær opinber gjöld eða ógreiddur arður. Til leiðréttingar geti komið á fjárhæð skuldar samkvæmt gangvirðisreikningi. Engin dæmi þekkist um þörf þess að færa gerning færðan til skuldar í reikningsskilum yfir á eigið fé í skattskilum.

Þá er áréttað að ef það komi til þess að C banki hf. gefi út umrædd verðbréf þá verði þau í reikningsskilum færð og flokkuð sem skuld en ekki meðal eigin fjár í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðalinn IAS 32, en farið er nánar yfir efni staðalsins í beiðninni.

Um annað álitaefni:

Vísað er til þess að í 2. mgr. 59. gr. tsl. sé kveðið á um að tekjur skuli að jafnaði telja til skattskyldra tekna þegar þær verði til, þ.e. þegar myndast hafi krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Ekki sé í tsl. kveðið jafn afdráttarlaust á um tímamark gjaldfærslu rekstrarkostnaðar. Í 2. mgr. 29. gr. þeirra sé kveðið á um að frá tekjum lögaðila sé „heimilt að draga rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við“. Sama orðalag sé viðhaft í 1. tölul. 31. gr. þar sem rekstrarkostnaðarhugtakið sé skilgreint en vextir teljist til rekstrarkostnaðar samkvæmt ákvæðinu.

Þá segir að ekki verði annað séð en að í áralangri skattframkvæmd hafi, hvað tímamark gjaldfærslu varðar, verið lögð til grundvallar sömu sjónarmið og varðandi tekjufærsluna, þ.e. að miða tímamarkið við kröfustofnun nema þegar um óviss gjöld sé að ræða. Í því sambandi er minnt á ákvæði 2. mgr. A-liðs 21. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, en þar segði: „Til rekstrarkostnaðar á skattárinu teljast ekki aðeins þau útgjöld, sem greidd hafa verið á árinu, heldur einnig sérhver sá kostnaður, sem áfallið hefur vegna öflunar teknanna, t. d. ógreidd vinnulaun, ógreidd húsaleiga o.s.frv.“.Þó þessi kafli reglugerðar 245/1963, sem þetta ákvæði tilheyrði hafi verið felldur úr gildi með reglugerð nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, verði ekki séð að með setningu hennar hafi verið gerð efnisleg breyting á tímafærslu gjaldfærslu. Umrædd verðbréf muni bera vexti. Við vissar aðstæður verði C banka hf. óheimilt að greiða áfallna vexti en þegar þeim ákvæðum sleppir muni C banki hf. hafa ákvörðunarvald um hvort áfallnir vextir hverju sinni verði greiddir eða þeir felldir niður. Óvissa ríki því um hvort áfallnir vextir komi til greiðslu þar til fyrir liggur hvort tveggja, að uppfyllt séu skilyrði til greiðslu þeirra og ákvörðun C banka hf. Komi ekki til greiðslu vaxta muni hvíla á C banka hf. skylda til að tilkynna skráðum eigendum verðbréfanna þar um fyrir eða á gjalddaga vaxtanna.

Að framangreindu virtu megi ætla að ekki sé grundvöllur fyrir gjaldfærslu vaxta í skattskilum fyrr en á því tímamarki þegar fyrir liggur að til greiðslu vaxtanna muni koma.

Um þriðja álitaefni:

Kveðið sé á um skyldur greiðanda vaxta og arðs, til að halda skatti eftir í staðgreiðslu, annars vegar í lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og hins vegar í lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Tímamark afdráttarskyldu af vöxtum annars vegar og arði hins vegar sé ekki að öllu leyti það sama. Að meginreglu sé tímamarkið við greiðslu, hvort heldur er vegna vaxta eða arðs. Hvað arð varðar sé þó mælt fyrir um það frávik að afdráttur skuli fara fram í lok þess árs þegar ákvörðun um arð var tekin, enda þótt arðurinn sé þá ógreiddur.

Í tilviki afdráttar skatts af greiðslum úr landi, skv. lögum nr. 45/1987, sé verulegur munur á reglum eftir því hvort um vaxta- eða arðgreiðslur sé að ræða. Skatthlutfall af vöxtum sé 12% hvort heldur móttakandi sé maður eða lögaðili. Skatthlutfall af arði manna sé 22%, en af arði lögaðila 20%. Enn fremur geti ákvæði tvísköttunarsamninga Íslands við heimilisfestarríki viðtakanda haft áhrif á afdráttarskyldu, að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra á heimild til beitingar ákvæðanna við afdrátt skatts í staðgreiðslu.

Falli vaxtagreiðslur af umræddum verðbréfum hvorki undir vaxtahugtak eða arðshugtak tsl., verði ekki séð að á C banka hf. muni hvíla skylda til að halda skatti eftir í staðgreiðslu af vaxtagreiðslum.

Með vísan til umfjöllunar um fyrsta álitaefnið megi ætla að fremur beri að haga afdrætti skatts í staðgreiðslu eftir þeim reglum sem gilda um vexti, en þeim reglum sem gilda um arð.

Um fjórða álitaefni:

Samkvæmt 6. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987 skuli halda eftir skatti í staðgreiðslu af tilteknum greiðslum, þ.m.t. vaxtagreiðslum, til þeirra sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Því aðeins séu vaxtagreiðslur staðgreiðsluskyldar að rétthafi þeirra beri skattskyldu hér á landi af vöxtum. Samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. tsl. nái takmörkuð skattskylda að meginreglu til allra þeirra sem hér á landi hafa vaxtatekjur af fjármálagerningum. Frá þeirri meginreglu séu nokkrar undantekningar. Í 3. og 4. málslið töluliðarins er kveðið á um að skattskyldan taki ekki til vaxta vegna skuldabréfa sem gefin séu út í eigin nafni af fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að því skilyrði uppfylltu að skuldabréfin séu skráð hjá verðbréfamiðstöð í aðildarríki OECD, EES, EFTA eða í Færeyjum. Jafnframt sé gert að skilyrði að viðskiptin séu ekki óheimil samkvæmt 13. gr. b – 13. gr. n laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.

Engin áhöld séu um að C banki hf. sé fjármálafyrirtæki skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, þ.e. viðskiptabanki. Gefnar forsendur séu að verðbréf þau er C banki hf. hyggst gefa út í eigin nafni verði skráð hjá verðbréfamiðstöð innan OECD, EES eða EFTA og að útgáfa verðbréfanna og greiðslur af þeim muni ekki verða í bága við 13. gr. b – 13. gr. n laga nr. 87/1992. Það sé hins vegar álitamál hvort verðbréfin teljist vera skuldabréf í þeim skilningi sem leggja ber í ákvæði 3. og 4. málsl. 8. tölul. 3. gr. tsl.

Í álitsbeiðninni er orðið verðbréf viðhaft um þá fjármálagerninga sem C banki hyggst gefa út og ætlað er að teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 samkvæmt 2. mgr. 84. gr. b laga nr. 161/2002. Orðið verðbréf er viðhaft í ljósi þess að gerningarnir bera í senn svipmót skuldabréfa og hlutabréfa og álitaefni er m.a. hvort greiðslur samkvæmt þeim skuli í skattalegu tilliti teljast vera vaxtagreiðslur eða arðgreiðslur.

Bent er á að við úrlausn þessa álitaefnis sé vert að horfa til skilgreininga í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Hugtakið fjármálagerningur nái yfir gerninga sem tilteknir eru í a- til h-lið töluliðarins, þ.m.t. verðbréf samkvæmt a-lið. Í a-lið séu nefndir þrír flokkar verðbréfa. Í fyrsta lagi hlutabréf í fyrirtækjum og önnur verðbréf sem séu ígildi hlutabréfa í fyrirtækjum, sameignarfélögum eða öðrum lögaðilum og heimildarskírteini fyrir hlut. Í öðru lagi skuldabréf eða skuld á verðbréfaformi, þ.m.t. heimildarskírteini vegna slíkra verðbréfa. Í þriðja lagi önnur verðbréf sem veiti rétt til að kaupa eða selja verðbréf eða leiða til uppgjörs í reiðufé sem ráðist af verðbréfum, gjaldmiðlum, vöxtum eða ávöxtunarkröfum, hrávörum eða öðrum vísitölum eða mælikvörðum. Síðast nefndi flokkurinn taki til framseljanlegra afleiða. Að virtu efni þeirra verðbréfa sem C banki hf. fyrirhugi að gefa út komi vart til álita að fella þau undir síðast nefnda flokkinn.

Þá sé einnig bent á að vert sé að hafa í huga í þessu sambandi að umrædd verðbréf muni verða flokkuð sem fjárskuld í reikningsskilum C banka hf. í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðalinn IAS 32.

Verði umrædd verðbréf talin til skuldabréfa í skilningi 3. málsl. 8. tölul. 3. gr. tsl. leiði af því að C banka hf. muni ekki bera að halda skatti eftir í staðgreiðslu af vaxtagreiðslum til rétthafa sem ekki beri ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi.

Forsendur ríkisskattstjóra:

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á fyrirkomulagi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þeirra sem eftir álitinu leitar. Álitaefnið þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðenda sjálfra.

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðenda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðenda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

Álitaefni snýst um hvort álitsbeiðanda verði heimilt í skattskilum sínum að gjaldfæra vexti af þeim verðbréfum sem fyrirhugað er að gefa út og þá á hvaða tímamarki. Einnig lúta álitaefnin að skyldum álitsbeiðanda til að halda eftir staðgreiðslu af greiddum vöxtum eða arði.

Niðurstaða ríkisskattstjóra:

Hér er til skoðunar hvort vextir af verðbréfum sem álitsbeiðandi fyrirhugar að gefa út verði frádráttarbærir í skattsskilum C banka hf. sem vextir af skuld eða hvort líta beri á greiðslur sem arðgreiðslur. Ef greiðslurnar teljist hvorki vextir né arður kemur til skoðunar hvort um sé að ræða útgjöld bankans sem falli undir hina almennu skilgreiningu rekstrarkostnaðar, þ.e. gjalda til öflunar, viðhalds og tryggingar tekna í atvinnurekstri, sbr. 2. mgr. 30. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. tsl.

Í lýsingu á þeim fjármálagerningum sem C banki hf. fyrirhugar að gefa út er notað hugtakið vextir og út frá því er gengið að um vexti sé að ræða. Sú nafngift sem greiðslum er valin ræður þó út af fyrir sig ekki úrslitum um það hvers eðlis greiðsla eða gjöld teljast í skattalegu tilliti. Eins og mál þetta er vaxið þykir verða að taka til sérstakrar úrlausnar eðli þeirra tekna sem eigendur verðbréfanna fá frá álitsbeiðanda sem útgefanda þeirra. Nefnt hefur verið að til álita kæmi að líta bæri á greiðslur þessar sem arð en með vísan til þess að hvorki er til að dreifa hlutum eða hlutabréfum, sbr. lög 138/1994 og 2/1995, kemur slíkt ekki til álita hér.

Engin sérstök ákvæði er að finna í lögum nr. 90/2003 sem skilgreini mun skuldar og eigin fjár. Við mat á því hvort fjármálagerningur teljist vera skuld eða hluti eigin fjár er almennt horft til þess hvort til staðar séu helstu auðkenni láns, þ.e. að á skuldara hvíli almenn og óskilyrt skylda til að greiða höfuðstólinn til baka. Þá er horft til þess hvort höfuðstóllinn beri vexti eða hvort greiðsla vaxta sé háð afkomu skuldara.

Umrædd verðbréf hafa engan gjalddaga á höfuðstól, þ.e. handhafi verðbréfsins á ekki kröfu til endurgreiðslu höfuðstóls nema til slita bankans komi. Þá yrði bankanum heimilt, að uppfylltum skilyrðum um gjaldfærni í kjölfar greiðslu og samþykki Fjármálaeftirlitsins að endurgreiða höfuðstólinn, að fullu eða að hluta, í fyrsta lagi að 5 árum liðnum og síðan á 5 ára fresti. Þá gæti bankinn ákveðið hverju sinni að greiða ekki áfallna vexti eða að greiða þá aðeins að hluta til. Vextir, sem bankinn ákveður að greiða ekki, falla niður, en geta ekki komið til greiðslu síðar.

Samkvæmt því sem lýst hefur verið í álitsbeiðni verður ekki annað ráðið en að eigendur bréfanna eigi engan rétt á því að krefjast þess af bankanum að hann innleysi eða kaupi bréfin innan tiltekins tíma.

Þá ber það einnig með sér einkenni eiginfjár að heimild bankans til greiðslu vaxta er bundin því skilyrði að hann sé gjaldfær í kjölfar greiðslu, þ.e. fær um að efna fjárskuldbindingar sínar þegar þær falla í gjalddaga og að eignir séu umfram skuldir. Greiðslur vaxta á grundvelli verðbréfsins eru því háðar afkomu C banka hf. líkt og gildir um heimildir til arðgreiðslna.

Samkvæmt reikningsskilastaðli IAS 32 er fjármálagerningur fjárskuld ef útgefandinn er skuldbundinn til að láta af hendi handbært fé eða aðra fjáreign eða ef handhafinn getur krafist handbærs fjár eða annarra fjáreigna. Samkvæmt skilmálum fyrirhugaðra verðbréfa er enginn gjalddagi höfuðstóls. Handhafi verðbréfsins mun ekki eiga kröfu til endurgreiðslu höfuðstóls nema til slita bankans komi. Þá getur bankinn hverju sinni ákveðið að greiða ekki áfallna vexti. Bankanum er heimilt að endurgreiða höfuðstól, að fullu eða að hluta, í fyrsta lagi að 5 árum liðnum og síðan á 5 ára fresti. Ekki verður því séð að þau verðbréf sem fyrirhugað er að gefa út falli undir framangreinda skilgreiningu.

Af lýsingum á skilmálum bréfanna verður ekki ráðið að almenn vanefndaúrræði yrðu lánveitendum tiltæk sem almennt gildir um skuldabréf komi til vanefnda skuldara. Af því sem að framan er rakið þykir ljóst að fjármálagerningar þeir sem fyrirhugað er að stofna til uppfylla ekki þau skilyrði sem gerð eru til lána sem viðurkennd eru sem grundvöllur frádráttarbærra vaxta í skattskilum.

Í álitsbeiðninni er vísað til bindandi álita ríkisskattstjóra nr. 2/01 og 3/07. Málavextir þeirra álita eru með öðrum hætti en í álitsbeiðni hvað varðar greiðslu vaxta.

Í málavaxtalýsingu bindandi álits nr. 2/01 segir eftirfarandi um vaxtaskilmála:

„Lánið mun bera fasta ársvexti sem greiða skal tvisvar á ári. Vextir skulu þó aldrei vera hærri á ári hverju en sem nemur óráðstöfuðu eigin fé […] samkvæmt ársreikningi félagsins vegna næstliðins árs. Komi til þess að vaxtagreiðslur skerðist vegna þessa falla þær niður og á lánveitandi engan rétt til að krefjast vaxtanna í öðru formi af […].“

Samkvæmt framansögðu er greiðsla vaxta háð ákveðnum skilyrðum, þ.e. þeir mega aldrei vera hærri á ári hverju en sem nemur óráðstöfuðu eigin fé samkvæmt ársreikningi félagsins vegna næstliðins árs. Ekki verður annað ráðið en ef umrætt skilyrði sé uppfyllt verði til krafa til greiðslu þeirra.

Í forsendum bindandi álits nr. 3/07 segir m.a.:

„Fyrirhugaður lánssamningur mun innihalda ákvæði um vexti af fjárframlaginu. Þannig mun álitsbeiðandi hafa tekjur af framlaginu. Samkvæmt lánssamningnum skulu álitsbeiðanda árlega falla til vextir. Fyrstu tíu árin skulu þeir vextir nema föstum hundraðshluta framlagsins, en að tíu árum liðnum verða vextirnir breytilegir. Gjalddaga fastra vaxta er ætlað að vera einu sinni á ári hverju, en breytilegra ársfjórðungslega. Greiðanda vaxtanna verður heimilt að fresta greiðslu gjaldfallinna vaxta í allt að fimm ár. Vextir sem frestað hefur verið greiðslu á teljast vera í vanskilum og getur komið til greiðslu vanskilavaxta af þeim sökum við ákveðnar aðstæður.“

Að mati ríkisskattstjóra verður að gera skilsmun þess að fjármálagerningur geti talist til eigin fjár þess sem fjárframlags nýtur eða um sé að ræða skuldabréf sem uppfyllir ákvæði þess að teljast skuld í þeim skilningi að vextir teljist frádráttarbærir samkvæmt 31. gr. tekjuskattslaga. Það að fjárframlag eða skuld sé ekki viðurkennd sem eiginlegur eiginfjárliður eða teljist til viðbótar eigin fjár jafngildir ekki því að um sé að ræða skuld hvers vextir séu frádráttarbærir frá skattskyldum tekjum. Það mun almennt viðurkennt að þegar lýstur saman reglum sem gilda skuli um framsetningu á upplýsingum í ársreikningum og ákvæðum skattalaga, þá ræðst skattlagning af ákvæðum skattalaga s.s. gildir um skattalegt bókfært eigið fé. Hafi þannig öll megin auðkenni skuldabréfs verið afmáð til að uppfylla megi aðrar þarfir þá kann það óhjákvæmilega að hafa afleiðingar í skattalegu tilliti. Skiptir þannig máli við gjaldfærslu vaxta í skattskilum að sýnt sé fram á að ótvíræð krafa sé til greiðslu þeirra. Leiða má rök fyrir því í þessu sambandi að á sömu álitaefni kunni að reyna í skattalegu tilliti varðandi færslu til tekna, sbr. 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga, þegar lánveitandi á hlut að máli.

Almennt hefur lánveitandi í hendi sér vanefndaúrræði komi til þess að vanefndir verði á greiðslu vaxta eða afborgana, þá mun greiðsla vaxta tíðast ekki vera háð vilja skuldara eða því að leita þurfi samþykkis þriðja aðila.

Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að ekki sé um frádráttarbæra vexti að ræða, hvort heldur litið yrði á verðbréf sem bankinn gæfi út sem eigið fé eða sem skuld er ekki uppfyllti skilyrði um ótvíræða skuldbindingu til að greiða höfuðstól og vexti. Greiðsla vaxta er valkvæð og er það mat ríkisskattstjóra að hún geti þannig ekki fallið undir hina almennu skilgreiningu rekstrarkostnaðar, þ.e. gjalda til öflunar, viðhalds og tryggingar tekna í atvinnurekstri, sbr. 2. mgr. 30. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 31 gr. tsl. og verið frádráttarbær á þeim grunni.

Þrátt fyrir að það geti vart verið ákvörðunarástæða fyrir fyrirhuguðum ráðstöfunum, hvort greiðsla álitsbeiðanda teljist vextir eða arður þykir mega svara fyrirspurninni í samræmi við framangreint. Vextir þeir sem hugsanlega kæmu til greiðslu óháð frádráttarbærni þeirra teljast falla undir 3. málsl. 8. tölul. 3. gr. sbr. til hliðsjónar 5. málsl. tilvitnaðs ákvæðis laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Vextir af þeim verðbréfum sem fyrirhugað er að gefa út teljast ekki frádráttarbærir vextir í skattalegu tilliti.
  • Ekki skal halda eftir staðgreiðslu af greiddum vöxtum enda séu uppfyllt ákvæði 3. og/eða eftir atvikum 5. málsl. 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum