Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 01/15

26.3.2015

Virðisaukaskattur – Fyrirhuguð ráðstöfun

Málsatvik skv. álitsbeiðni:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi annist greiðslumiðlun, útgáfu og dreifingu reikninga fyrir aðra, prenti og sendi út greiðsluseðla ásamt því að vera milliinnheimtufyrirtæki.  Samkeppnisaðilar álitsbeiðanda séu m.a. bankar og að einhverju leyti önnur innheimtufyrirtæki og aðrir.

Þá kemur fram í álitsbeiðni að bankar krefji umbjóðendur sína um kröfuumsýslugjöld og að bankarnir innheimti ekki virðisaukaskatt af þessari þjónustu þó svo hún sé veitt í samkeppni við álitsbeiðanda.  Álitsbeiðandi leggi aftur á móti virðisaukaskatt á sambærileg gjöld sem hann innheimti af umbjóðendum sínum og vísar álitsbeiðandi til 1. gr., 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem og álits endurskoðanda félagsins. 

Orðrétt segir svo í álitsbeiðni:

„Það sem steininn tekur þó úr og er tilefni óskarinnar um bindandi álit er útskrift af meðfylgjandi gjaldskrá samkeppnisaðila [álitsbeiðanda], [X ehf.], sem dagsett er 19. janúar sl. og tekin af heimasíðu félagsins []  Í 2. gr. gjaldskrárinnar er fjallað um seðilgjald og þar taldir upp þeir sömu liðir og að framan eru nefndir, að nokkru með öðrum heitum samtals, utan rafræns reiknings, að fjárhæð 390 krónur, og við þá merkt í athugasemd „ber ekki VSK“.“

Álitsbeiðandi upplýsir að honum hafi „lengi sollið móður“ yfir samkeppnislegu óréttlæti sem verið hafi gagnvart bankakerfinu vegna virðisaukaskatts sem að því er virðist byggi á ákvæðum 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, sem og á gömlum viðhorfum og sjónarmiðum um sérstöðu og sérhæfni í starfsemi banka og sparisjóða.  Telur álitsbeiðandi að þessar undanþágur séu nú að mestu úreltar vegna breytts tíðaranda, viðskiptahátta og nýrra þjónustulausna sem ekki séu háðar einkaréttarlegum leyfum lánastofnana eða sérhæfni þeirra.  Vísar álitsbeiðandi til bréfs ríkisskattstjóra frá því í maí 2003 (tilv. 12/03) sem fylgdi álitsbeiðni.

Að lokum kemur fram í álitsbeiðni að í ljósi framangreinds og sérstaklega með hliðsjón af framsetningu [X ehf.] telji álitsbeiðandi einsýnt að hann þurfi að fá úr því skorið með bindandi áliti, hvort honum og þá öðrum „sé heimilt, og ef, hvort eigi þá bæði við vinnuliði og útlagðan / aðkeyptan kostnað, að inna tilvitnaða þjónustu af hendi án greiðslu virðisaukaskatts af henni.  Ef ekki hvort tilgreindum aðilum, [X ehf.] og /eða bönkum sé slíkt sama heimilt og þá hvers vegna.“

Forsendur ríkisskattstjóra:

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit enda geti mál varðað verulega hagsmuni þess sem eftir slíku áliti leitar.  Í 2. mgr. 1. gr. nefndra laga kemur fram að eigi sé heimilt að óska eftir bindandi áliti um skattaleg áhrif ráðstafana sem þegar hafa verið gerðar.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 91/1998 kemur fram að meginmarkmið frumvarpsins sé að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga.  Orðrétt segir svo í athugasemdunum:

„Fyrirspurn verður að beinast að tiltekinni fyrirætlan skattaðila um ráðstafanir sem ekki hefur þegar verið ráðist í, þar sem því er nánar lýst að hverju fyrirspurnin beinist.“

Samkvæmt framangreindu geta skattaðilar óskað eftir bindandi áliti um skattalegar ráðstafanir sem fyrirhugað er að ráðast í.  Af beiðni álitsbeiðanda er ekki unnt að ráða hver sú ráðstöfun sé.  Álitsbeiðandi setur fram ábendingar um framkvæmd samkeppnisaðila og lýsir eigin tilhögun og setur að svo komnu máli fram almenna fyrirspurn um hvor hafi rétt fyrir sér, samkeppnisaðilarnir eða hann sjálfur.

Með vísan til framangreinds þykir verða að vísa frá beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ályktunarorð:

Beiðni álitsbeiðanda dags. 19. febrúar 2015 um bindandi álit er vísað frá.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum