Bindandi álit

Bindandi álit nr. 15/15

30.10.2015

Breytilegt skuldabréf - uppgreiðslugjald

Málavextir:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð skv. reglum laga nr. 161/2002, með síðari breytingum.  Þá kemur fram að fyrirhugað sé að ljúka slitameðferð álitsbeiðanda með gerð nauðasamnings við kröfuhafa félagsins sem jafnframt feli í sér greiðslu á svokölluðu stöðugleikaframlagi til Seðlabanka Íslands sbr. lög nr. 59/2015.  Verði nauðasamningurinn staðfestur af Seðlabanka Íslands er fyrirhugað að óska eftir staðfestingu héraðsdóms á samningnum fyrir 31. desember 2015.

Álitsbeiðandi upplýsir að fyrirhugað sé að greiða forgangskröfur samkvæmt 109., 110. og 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. að fullu og hefði nauðasamningur þannig engin áhrif á þær.  Ennfremur yrðu kröfur sem njóta veðréttar eða annars tryggingaréttar greiddar að því marki sem tryggingaréttindi nægðu til greiðslu slíkra krafna.  Nauðasamningur hefði þannig einungis áhrif á þessar kröfur að því  marki sem tryggingaréttindi nægja ekki til greiðslu þeirra, en eftirstöðvar þeirra lúta ákvæðum 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Hvað varðar kröfur skv. fyrrgreindri 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. upplýsir álitsbeiðandi að fyrrnefndu kröfurnar yrðu efndar með eftirfarandi hætti skv. fyrirhuguðum nauðasamningi:

  • Með eingreiðslu í reiðufé skv. heimild í 3. mgr. 29. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. (lágmarksgreiðsla).  Fjöldi kröfuhafa myndi fá fullar heimtur með þessari greiðslu
  • Með allt að 85%-86% eftirgjöf krafna sem tæki mið af mati á líklegu virði eigna (e. base case) án tillits til framtíðarvaxta (e. best case).
  • Með útgáfu nýrra hluta í álitsbeiðanda í tilteknu hlutfalli við fjárhæð krafna.
  • Með útgáfu skuldabréfa með breytirétti.

Eftirstæðar kröfur skv. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. myndu falla niður að fullu.

Um skuldabréfin sem álitsbeiðandi hyggst gefa út skv. framanrituðu kemur fram í álitsbeiðni að nafnverð þeirra muni nema tilteknu hlutfalli af samningskröfum á hendur álitsbeiðanda, t.d. á bilinu 17%-18% (höfuðstóll) sem tæki mið af áætluðum hámarksheimtum af eignum álitsbeiðanda miðað við mögulegan virðisauka eigna (umfram lágmarksvirði e. base case) og mögulegar framtíðarvaxtatekjur (e. best case).  Afskriftin á 85%-86% krafna tæki mið af líklegu lágmarksvirði eigna álitsbeiðanda (e. base case) án tillits til framtíðarvaxtatekna (e. best case).  Mismunur á nafnvirði skuldabréfanna og afskriftar myndi þannig myndast.  Álitsbeiðandi telur að honum beri að tekjufæra þennan mismun.  Þá bendir álitsbeiðandi á að ef skuldabréfum verður breytt í hlutabréf að hluta til á næstu árum muni sú umbreyting að öllum líkindum færast til tekna í skattskilum sem eftirgjöf skulda.

Þá er upplýst að skuldabréfin verði gefin út til 20 ára og að í þeim verði kveðið á um reglulegar afborganir.  Fjárhæðir afborgana muni ráðast af reiðufjárstöðu álitsbeiðanda á hverjum tíma.  Í skuldabréfunum verði kveðið á um breytirétt til handa kröfuhöfum og álitsbeiðanda þar sem heimilt verði að breyta hluta af skuldabréfunum í hlutafé.  Mögulegt sé að álitsbeiðandi eða kröfuhafar muni nýta þennan rétt eftir árið 2015 ef ljóst er að endurheimtur af eignum hans muni ekki duga til greiðslu skuldabréfanna.  Til frekari skýringa tekur álitsbeiðandi fram að breytirétti álitsbeiðanda verður ekki beitt nema með samþykki kröfuhafa ef lækka á fjárhæð allra skuldabréfanna meira en að jafnvirði um það bil 230 milljarða kr.

Jafnframt kemur fram að skuldabréfunum sé ekki ætlað að bera vexti en þar sem tilteknir kröfuhafar álitsbeiðanda telji að nafnverð bréfanna kunni að vera of lágt miðað við hámarksvirði eigna álitsbeiðanda þá sé til skoðunar að hafa í skuldabréfunum heimild fyrir uppgreiðslugjaldi (e. redemption fee) sem næmi allt að 20% af nafnverði skuldabréfanna.

Nefnt uppgreiðslugjald muni eingöngu greiðast ef fyrirséð er að skuldabréfin verði greidd að fullu fyrir lokagjalddaga.  Ef eignir álitsbeiðanda nemi þá hærri fjárhæð en nemur eftirstöðvum skuldabréfanna sé fyrirhugað að greiða gjaldið sem næmi eins og fyrr segir allt að 20% af nafnverði skuldabréfanna.

Ennfremur upplýsir álitsbeiðandi að eigendur skuldabréfanna, kröfuhafar, muni jafnframt verða hluthafar í álitsbeiðanda við staðfestingu nauðasamnings.  Álitsbeiðandi áréttar að skuldabréfin muni ekki fela í sér nein réttindi til ákvörðunartöku á hluthafafundi eða til stjórnar á álitsbeiðanda.  Slík réttindi muni eingöngu fylgja hlutabréfum í álitsbeiðanda.

Álitaefni:

Í álitsbeiðni er ríkisskattstjóri beðinn að staðfesta að:

  • fyrirhuguð skuldabréf muni fela í sér formbreytingu á hluta skulda álitsbeiðanda þannig að ekki sé um að ræða eftirgjöf á þeim hluta skuldanna eða umbreytingu þeirra í eigin fé“.

Geti ríkisskattstjóri ekki staðfest að umrædd skuldabréf feli eingöngu í sér formbreytingu á hluta skulda álitsbeiðanda er ríkisskattstjóri beðinn að staðfesta að:

  • einungis sá hluti skuldabréfanna sem nemur breytirétti álitsbeiðanda teljist umbreyting í eigið fé“.

Ennfremur er ríkisskattstjóri beðinn að staðfesta að:

  • litið verði á uppgreiðslugjald (e. Redemption Fee), sem álitsbeiðandi greiðir og nemur allt að 20% af nafnverði skuldabréfsins, sem staðgreiðsluskylda vaxtagreiðslu en ekki arðgreiðslu, sbr. lög um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, og lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur nr. 94/1996

og að:

  • litið verði á uppgreiðslugjald sbr. 2, sem álitsbeiðandi greiðir þrátt fyrir umbreytingu skuldabréfs að hluta til, sem staðgreiðsluskylda vaxtagreiðslu en ekki arðgreiðslu sbr. lög um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, og lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur nr. 94/1996“.s

Sjónarmið álitsbeiðanda:

I.  Umbreyting krafna í skuldabréf:
Álitsbeiðandi telur að umrædd skuldabréf feli í sér breytt form á greiðslu samningskrafna í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. 

Þá vísar álitsbeiðandi til bindandi álits ríkisskattstjóra nr. 2/13 þar sem álitsbeiðanda í því áliti var heimilt að líta svo á að útgáfa á sambærilegum skuldabréfum og álitsbeiðandi hefur nú í hyggju að gefa út fæli í sér breytt form á greiðslu krafna.  Þannig sé ekki um að ræða umbreytingu skulda í eigið fé eða einhvers konar eftirgjöf skulda í skattalegu tilliti.

Ennfremur telur álitsbeiðandi ljóst að umrædd skuldabréf geti ekki talist til eigin fjár því álitsbeiðandi muni telja eftirstöðvar nafnverðs skuldabréfanna í lok hvers reikningsárs til skulda í skattskilum sínum.  Þá muni kröfuhafar samkvæmt skuldabréfunum einnig fá hlutabréf í álitsbeiðanda og muni öll réttindi til stjórnunar og ákvarðanatöku í álitsbeiðanda eingöngu fylgja hlutabréfunum.

II.  Uppgreiðslugjald
Álitsbeiðandi áréttar að uppgreiðslugjald komi eingöngu til greiðslu ef skuldabréfin verða greidd fyrir lokagjalddaga þann sem tilgreindur verður í bréfunum.  Eignir álitsbeiðanda sem verði umfram nafnverð skuldabréfanna og uppgreiðslugjaldsins muni greiðast í gegnum hlutafjáreign sem endurgreiðsla á kaupverði hlutabréfanna eða sem arður við félagsslit, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Skuldabréfunum muni ekki fylgja neinn réttur til ákvörðunartöku á hluthafafundi eða til stjórnar á álitsbeiðanda. 

Álitsbeiðandi er þeirrar skoðunar að fara beri með greiðslu á uppgreiðslugjaldinu sem vaxtagreiðslu samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga.  En samkvæmt þessum ákvæðum séu hvers kyns vextir, afföll og verðbætur skattskyld sem vaxtatekjur.  Máli sínu til stuðnings vísar álitsbeiðandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 391/2011, þar sem deilt var um skattlagningu afleiðusamninga og telur álitsbeiðandi að leiða megi af tilvitnuðum úrskurði að almennt séu hvers kyns tekjur af lánum umfram höfuðstól og vexti talin til tekna sem vextir.  Þannig hljóti tekjur umfram höfuðstól eða nafnverð kröfu sem ber ekki vexti einnig að teljast til vaxta í skattskilum.

Greiðsla uppgreiðslugjaldsins færi fram á grundvelli skuldabréfanna, þ.e. beinlínis yrði samið um gjaldið sem hluta af greiðslu samkvæmt skuldabréfi og af þeim sökum sé ekki hægt að jafna gjaldinu við arðsúthlutun samkvæmt 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í álitsbeiðni kemur fram að gert sé ráð fyrir að ákvæði um uppgreiðslugjald í skuldabréfunum haldi gildi sínu þrátt fyrir að umbreyting krafna í hlutafé hafi átt sér stað.  Álitsbeiðandi telur þetta ekki skipta máli og að uppgreiðslugjaldið teljist áfram vera vaxtatekjur í skilningi tekjuskattslaga.

Forsendur ríkisskattstjóra:

I.  Almennt:
Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á kerfi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar.  Álitaefnið þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfs.

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998.  Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

II.  Umbreyting á kröfum í skuldabréf:
Eins og rakið hefur verið óskar álitsbeiðandi eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti með bindandi áliti að útgáfa álitsbeiðanda á skuldabréfum til kröfuhafa muni fela í sér formbreytingu á hluta skulda hans þannig að ekki sé um að ræða eftirgjöf á þeim hluta skuldanna eða umbreytingu í eigið fé.  Í álitsbeiðni kemur svo fram að nafnvirði umræddra skuldbréfa muni nema tilteknu hlutfalli af samningskröfum á hendur álitsbeiðanda sem muni taka mið af áætluðum hámarksheimtum af eignum álitsbeiðanda miðað við mögulegan virðisauka eigna og mögulegar framtíðartekjur.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að samningskröfur séu þær kröfur sem ekki séu undanþegnar áhrifum nauðasamnings og  falla ekki niður vegna hans eftir ákvæðum 28. gr. laganna.  Ákvæði 2. mgr. 29. gr. tilvitnaðra laga er svohljóðandi:
„Í nauðasamningi má kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, breytt form á greiðslu þeirra eða þrennt það síðastnefnda í senn.“

Af lýsingu í álitsbeiðni má ráða að um sé að ræða breytt form á undirliggjandi kröfum, þ.e. þeim hluta þeirra sem eftir standa þegar álitsbeiðandi hefur gert þær ráðstafanir sem fram koma í a-, b- og c-lið iii-liðar á bls. 2 í álitsbeiðni. 

Ákvæði 47.-49. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, kveða á um ákveðin skilyrði sem uppfylla þarf ætli félag að gefa út breytanleg skuldabréf líkt og álitsbeiðandi hefur lýst í álitsbeiðni.  Uppfylla þarf þau skilyrði sem tilvitnuð ákvæði kveða á um svo unnt sé að líta svo á að um breytanleg skuldabréf sé að ræða í skattalegu tilliti.

Það er álit ríkisskattstjóra að fáist samþykki kröfuhafa álitsbeiðanda á umræddri breytingu á greiðslu krafna með útgáfu skuldabréfa við gerð nauðasamnings felist ekki í þeirri umbreytingu eftirgjöf þess hluta krafna enda verði greitt af skuldabréfunum sem slíkum eftir því sem kröfur innheimtast og lausafjárstaða álitsbeiðanda gefur tilefni til.  Komi síðar í ljós að skuldabréfin verði ekki greidd að fullu ber að telja það sem út af stendur til tekna sem eftirgefnar skuldir á þeim tíma sem slíkt liggur fyrir og í samræmi við gildandi lög á þeim tíma.

III.  Uppgreiðslugjald:
Síðari álitaefni í álitsbeiðni lúta að eðli svokallaðs uppgreiðslugjalds sem kemur til greina að greiða umfram höfuðstól þeirra skuldabréfa sem álitsbeiðandi hyggst gefa út til greiðslu krafna eins og lýst hefur verið hér að framan og þar með staðgreiðsluskyldu vegna þess gjalds sem mögulega gæti hvílt á álitsbeiðanda að reiða fram. 

Í tölvupósti frá umboðsmanni álitsbeiðanda sem barst ríkisskattstjóra þann 20. október 2015 kemur fram að gert sé ráð fyrir því að uppgreiðslugjald komi eingöngu til greiðslu fyrir lokagjalddaga, þ.e. ef fyrirséð er að endurheimtur álitsbeiðanda verði umfram nafnverð skuldabréfanna áður en komið er að lokagjalddaga.  Í tölvupóstinum er áréttað að álitsbeiðandi óski eftir því að fá bindandi álit um hvort uppgreiðslugjaldið teljist vextir í skattalegu tilliti ef skuldabréfunum hefur verið umbreytt að hluta til í hlutabréf á tímabilinu og er eftirfarandi dæmi sett fram í tölvupóstinum:
„Á árinu 2018 er 10% af höfuðstól skuldabréfanna umbreytt í hlutafé í [álitsbeiðanda].  Greiðslur af eftirstöðvum skuldabréfanna halda áfram í óbreyttri mynd.  Á árinu 2020 er fyrirséð að endurheimtur og virði eigna [álitsbeiðanda] er hærra en gert var ráð fyrir í upphafi og kemur þá á því ári til fullrar greiðslu eftirstöðva skuldabréfanna auk uppgreiðslugjalds.“

Í álitsbeiðni segir einnig:
„Þannig er ljóst að eignir álitsbeiðanda umfram nafnverð skuldabréfanna og uppgreiðslugjaldsins munu greiðast í gegnum hlutabréfaeign sem endurgreiðsla á kaupverði hlutabréfanna eða sem arður við félagsslit, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“

Af þessu má ráða að möguleiki álitsbeiðanda til greiðslu svokallaðs uppgreiðslugjalds byggir þannig á breytingu á virði eigna eða öðrum hagnaði sem orðið hefur til í rekstri álitsbeiðanda frá lokum staðfestingar nauðasamnings.

Í álitsbeiðni er rakið hvernig álitsbeiðandi hefur í hyggju að efna kröfur samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.  Kemur þar m.a. fram að gert sé ráð fyrir að kröfuhafar gefi eftir allt að 86% af kröfum sínum og að gefið verði út nýtt hlutafé til kröfuhafa í tilteknu hlutfalli við fjárhæð krafna og að lokum með útgáfu á breytanlegu skuldabréfi allt að 18%, sbr. umfjöllun hér að framan.

Gera verður mun á hefðbundnu láni þar sem lánveitandi áskilur sér vexti sem reiknast með reglubundnum hætti af höfuðstól lánsins eins og hann stendur á hverjum tíma á lánstímanum og þess að uppgreiðsla skuldara að fullu á vaxtalausu láni fyrir lok lánstíma teljist ein og sér eðlileg forsenda fyrir því að lántaki greiði kröfuhafa sérstaka greiðslu af því tilefni þannig að heildargreiðslur umfram upphaflegan höfuðstól lánsins yrðu við þær aðstæður taldar til vaxtatekna.

Líta ber til þess að við þær aðstæður sem hér eru uppi að kröfuhafar yrðu þegar við gerð nauðasamnings og síðar við umbreytingu skuldabréfs hluthafar í álitsbeiðanda.  Ef umrædd skuldabréf hefðu ekki að geyma ákvæði um svokallað uppgreiðslugjald má spyrja hvað verður um þá fjármuni sem álitsbeiðanda hlotnast ef endurheimtur og virði eigna hans verður hærra en upphaflega var gert ráð fyrir.  Í því tilviki hefur álitsbeiðandi sjálfur upplýst að eftirstæðir fjármunir muni greiðast hluthöfum sem arður við félagsslit sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Að framangreindu virtu er það álit ríkisskattstjóra að í því tilfelli að umræddir hluthafar veiti við þær sérstöku aðstæður sem hér er uppi vaxtalaust lán við endurheimtu krafna sinna en áskilji sér jafnframt greiðslu síðar umfram höfuðstól lánsins með tilliti til breytinga á virði eigna eða hagnaðar verður ekki talið að með þá greiðslu verði farið sem vexti í skattalegu tilliti heldur sé nærtækara að jafna greiðslu sem þessari til arðs af hlutareign að uppgreiddu skuldabréfinu sem slíku, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr., sbr. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.  Samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur telst arður til staðgreiðsluskyldra tekna.

Að þessu virtu getur ríkisskattstjóri ekki staðfest að hið svokallaða uppgreiðslugjald teljist vera staðgreiðsluskyldir vextir.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Fyrirhuguð skuldabréf sem álitsbeiðandi hyggst gefa út með breytirétti fela í sér formbreytingu á hluta krafna á hendur álitsbeiðanda þannig að ekki verður talið að um eftirgjöf skulda eða umbreytingu í eigið fé sé að ræða, enda séu þau verðmæti sem skipta um hendur með þessum hætti jafnverðmæt.
  • Uppgreiðslugjald sem álitsbeiðandi myndi greiða miðað við framfærðar forsendur telst arður af hlutareign skv. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987 eða lögum nr. 94/1996 allt eftir því sem við á.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum