Bindandi álit

Bindandi álit nr. 4/13

18.11.2013

Málsatvik og fyrirætlanir álitsbeiðanda:

Málavextir eru þeir helstir að álitsbeiðandi er einkahlutafélag, stofnað af X með 500.000 kr. hlutafé, og tilgangur X með stofnun álitsbeiðanda að eiga félag tilbúið fyrir viðskiptavin sem hygði á að stofnsetja einkahlutafélag. Álitsbeiðandi hefur enga starfsemi með höndum og hefur aldrei haft. Sjálfseignarstofnunin Y keypti alla hluti í álitsbeiðanda og fyrirhugar sem eini hluthafi að setja félaginu nýjar samþykktir með tiltekinn rekstur í huga.

Fyrirhugað er að tilgangur félagsins verði uppbygging, rekstur og eftir atvikum útleiga hverskonar húsnæðis fyrir eldri borgara og aðra sem hafa dregið úr eða látið af störfum, svo sem sjálfseignaríbúða, leiguíbúða, sjúkrahótela, hjúkrunarheimila, þjónustumiðstöðva, svo og þjónusta við íbúa í viðkomandi húsnæði og skyldur atvinnurekstur.

Fyrirhugað er að binda í samþykktir félagsins að hagnaði þess skuli eingöngu varið til almenningsheilla á sviði öldrunar-, heilbrigðis-, menntunar- og menningarmála, einkum er lúta að velferð aldraðra. Heimildir aðalfundar til ráðstöfunar hagnaðar verða bundnar við slíka ráðstöfun, auk jöfnunar á tapi fyrri ára og lögboðinna framlaga í varasjóð félagsins. Þá er fyrirhugað að binda í samþykktir, að komi til slita á félaginu skuli hreinni eign þess varið með sama hætti til almenningsheilla. Vísast í þessu sambandi til 2. mgr. 3. gr., 3. tölul. 14. gr. og 3. mgr. 27. gr. meðfylgjandi draga að samþykktum.

Fyrirhugað er að auka hlutafé félagsins, en enn er óráðið hverri fjárhæð sú hlutafjáraukning muni nema.

Álitaefni og forsendur þess:

Álitaefnið sem óskað er bindandi álits ríkisskattstjóra á, er hvort álitsbeiðandi muni að fyrirhuguðum ráðstöfunum gerðum verða undanþeginn greiðslu tekjuskatts á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Óskað er álits ríkisskattstjóra á álitaefninu miðað við þær forsendur:

·    Að álitsbeiðanda verði settar nýjar samþykktir eins og þeim er lýst hér að framan og fram koma í framlögðum drögum.

·    Að starfsemi álitsbeiðanda verði í samræmi við yfirlýstan tilgang í samþykktum.

·    Að ákvæðum 2. mgr. 3. gr., 3. tölul. 14. gr. og 3. mgr. 27. gr. samþykktanna verði ekki breytt síðar og að þeim ákvæðum verði framfylgt eftir því sem á þau kann að reyna.

Í álitsbeiðni færir álitsbeiðandi fram eftirfarandi rökstuðning:

Í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um að ekki skuli greiða tekjuskatt þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. og hér eiga heimili, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum.

Ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 getur m.a. tekið til skráðra einkahlutafélaga sem heimilisföst eru hér á landi, sbr. 1. tölul. 2. gr. sömu laga. Álitsbeiðandi er einkahlutafélag stofnsett samkvæmt ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Félagið er heimilisfast hér á landi og mun verða það áfram samkvæmt fyrirhuguðum breytingum á samþykktum þess. Félagið er skráð í hlutafélagaskrá í samræmi við ákvæði lag nr. 138/1994.

Eins og lýst er kaflanum fyrirætlanir hér að framan er fyrirhugað að tilgangur félagsins verði uppbygging, rekstur og eftir atvikum útleiga hverskonar húsnæðis fyrir eldri borgara og aðra sem hafa dregið úr eða látið af störfum, svo sem sjálfseignaríbúða, leiguíbúða, sjúkrahótela, hjúkrunarheimila, þjónustumiðstöðva, svo og þjónusta við íbúa í viðkomandi húsnæði og skyldur atvinnurekstur. Þá er fyrirhugað er að binda í samþykktir félagsins að hagnaði þess skuli einungis varið til almenningsheilla á sviði öldrunar-, heilbrigðis-, menntunar- og menningarmála, einkum er lúta að velferð aldraðra.

Hugtakið almenningsheill er ekki skilgreint í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Á hugtakið í skilningi umrædds ákvæðis hefur reynt í skattframkvæmd. Má í því sambandi benda á úrskurð yfirskattanefndar nr. 689/1997 og bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 12/00. Í þeim úrlausnum var m.a. horft til þess að almenningsheillahugtakið á samstöðu í ákvæði 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæðum 15. og 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Þau ákvæði kveða á um frádráttarrétt vegna gjafa til tiltekinna málaflokka, þ.m.t. hvers konar viðurkenndrar líknarstarfsemi og menningarstarfsemi fyrir almenning.

Að framangreindu virtu telur álitsbeiðandi að hann muni, miðað við gefnar forsendur, uppfylla skilyrði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 um markmið og ráðstöfun hagnaðar.

Forsendur og niðurstöður ríkisskattstjóra:

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt, að um sé að ræða mál er varðar verulega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar. Álitaefni þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfs. Áliti er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álit tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998, en bindur skattyfirvöld ekki með sama hætti gagnvart öðrum þeim er atvik kunna að varða. Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt en verði breytingar þar á kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi.

Bindandi álit þetta fjallar um álitsbeiðanda svo sem áformað er að það verði samkvæmt lýsingu í álitsbeiðni.

Í álitsbeiðni er óskað bindandi álits ríkisskattstjóra á því hvort álitsbeiðandi muni, að gerðum fyrirhuguðum ráðstöfunum, verða undanþeginn greiðslu tekjuskatts á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. laganna og hér eiga heimili, skuli ekki greiða tekjuskatt, ef þeir verji hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri almennu reglu laganna að allir lögaðilar hér á landi, óháð rekstrarformi, skuli greiða tekjuskatt.

Svipað ákvæði var að finna í eldri lögum, sbr. 2. málsl. A-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði tók þó samkvæmt orðan sinni einungis til hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila. Núgildandi ákvæði, sem upphaflega var lögtekið með 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, tekur hins vegar til allra þeirra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. laganna, uppfylli þeir þau skilyrði sem sett eru í 4. tölul. 4. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu standa skilyrði um félagaform ekki í vegi fyrir því að einkahlutafélag sem skráð er hér á landi með lögmæltum hætti geti fallið undir undanþágureglu 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að uppfylltum skilyrðum um almenningsheill.

Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 eru það tvö meginskilyrði sem þarf að fullnægja til þess að undanþáguákvæðið geti átt við. Annars vegar skal hagnaði varið til almenningsheilla og hins vegar verður slík ráðstöfun hagnaðar að vera einasta markmið lögaðilans samkvæmt samþykktum hans. Hugtakið almenningsheill er ekki skilgreint í 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Um inntak þess og þýðingu í máli þessu verður að líta til dóma- og úrskurðarfordæma. Einnig verður að telja að frádráttarheimild gjafa í 2. tölul. 31. gr. framangreindra laga og skilgreining málaflokka sem geta fallið undir þessa frádráttarheimild, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, eigi samstöðu með hugtakinu almenningsheill í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt drögum að samþykktum fyrir álitsbeiðanda er tilgangur félagsins samkvæmt 3. gr. samþykktanna „uppbygging, rekstur og eftir atvikum útleiga hvers konar húsnæðis fyrir eldri borgara og aðra sem hafa dregið úr eða látið af störfum, svo sem sjálfseignaríbúða, leiguíbúða, sjúkrahótela, hjúkrunarheimila, þjónustumiðstöðva, svo og þjónusta við íbúa í viðkomandi húsnæði og skyldur atvinnurekstur.“ Í 2. mgr. 3. gr. framlagðra draga að samþykktum segir „[h]agnaði félagsins skal eingöngu varið til almenningsheilla á sviði öldrunar-, heilbrigðis-, menntunar- og menningarmála, einkum er lúta að velferð aldraðra.“

Í 14. gr. fyrirliggjandi draga að samþykktum félagsins er gerð grein fyrir þeim málum sem taka skal til meðferðar á aðalfundi félagsins. Þar segir í 3. tölul. að taka skuli ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar eða taps síðast liðins starfsárs. Hagnaði verði einungis varið í samræmi við 2. mgr. 3. gr., til jöfnunar á tapi fyrri ára (og) til lögboðinna framlaga í varasjóð. Ríkisskattstjóri telur að samkvæmt framlögðum drögum sé ljóst að markmiðið með starfsemi og ráðstöfun hagnaðar fyrirhugaðs einkahlutafélags teljist svo sem fram hefur komið vera í þágu almenningsheilla í skilningi 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003.

Í þeim drögum að samþykktum fyrir álitsbeiðanda segir í 2. mgr. 27 gr. um slit félagsins að „[v]ið slit félagsins skal hreinni eign þess ráðstafað í samræmi við 2. mgr. 3. gr.“ Er því ljóst að við slit félagsins skuli eignum þess ráðstafað til almenningsheilla á nánar tilgreindu sviði. Ríkisskattstjóri telur að ákvæði þetta sé í samræmi við það markmið sem sett er í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003.

Ríkisskattstjóri fellst því á að fyrirhugað einkahlutafélag falli undir 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og verði því undanþegið greiðslu tekjuskatts.

Rétt þykir að taka fram að samkvæmt 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru þeir aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu á grundvelli 4. tölul. 4. gr. sömu laga engu að síður skyldir til að skila skattframtali. Þá eru aðilar sem undanþegnir eru skyldu til greiðslu tekjuskatts á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laganna, engu að síður, samkvæmt 4. mgr. 71. gr. sömu laga, skyldir til að greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum, sbr. 3., 4. og 5. tölul. C-liðar 7. gr. svo og samkvæmt 8. tölul. sama stafliðar 7. gr. að því er varðar söluhagnað af hlutabréfum. Ef einkahlutafélagið greiðir laun ber því að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og að skila tryggingagjaldi samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri telur að einkahlutafélagið, sem fyrirhugað er að stofna, verði undanþegið skyldu til greiðslu tekjuskatts, sbr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Álit þetta er reist á þeim forsendum að samþykktir álitsbeiðanda verði í samræmi við þau drög að samþykktum sem lögð hafa verið fram í málinu og að ráðstöfun hagnaðar og eigna við slit verði með þeim hætti sem lýst hefur verið í álitsbeiðni.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum