Bindandi álit

Bindandi álit nr 3/01

15.3.2001

Bál 03/2001

Álitsbeiðandi:

Álitsbeiðandi í máli þessu er A Íslandi ehf. Undir álitsbeiðni ritar X, hjá Z Endurskoðun ehf., sem fer með málið fyrir hönd álitsbeiðanda.

Tilefni:

Álitsbeiðni barst með bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda, A ehf., dags. 15. mars 2001, sem móttekið var og skráð í bækur ríkisskattstjóra þann 19. sama mánaðar. Í álitsbeiðni er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit sitt um fjögur álitaefni sem tengjast samningum sem álitsbeiðandi hyggst gera eins og nánar verður gerð grein fyrir í áliti þessu.

Málavextir:

Í álitsbeiðni er málavöxtum lýst svo:

“A hefur í huga að setja á fót starfsemi sem er fólgin í að afla vissum fyrirtækjum viðskiptavina til einhvers ákveðins umsamins tíma í senn. A verður því eins konar milliliður í því að koma á viðskiptum milli neytenda og hinna ýmsu seljenda. Ferlinu er best lýst með eftirfarandi hætti:

 1. A mun gera samninga við nokkur fyrirtæki um að afla viðskiptavina. Sem endurgjald fyrir þessa þjónustu mun hvert fyrirtæki um sig greiða þóknun til A í hvert skipti sem tryggðarviðskiptavinur á viðskipti við viðkomandi fyrirtæki. Hér er að vísu gert það skilyrði að viðskiptavinurinn greiði með kreditkorti. Við mánaðarlegt uppgjör greiðslukortafyrirtækisins við fyrirtækið er umsamin þóknun, þ.e. visst hlutfall af sölunni, greidd til A.
 2. Ákveðnir einstaklingar gerast tryggðarviðskiptavinir ákveðinna fyrirtækja með því að gera sérstakan tryggðarsamning við A. Tryggðarviðskiptavinur skuldbindur sig til að kaupa vöru eða þjónustu af þessum tilteknu fyrirtækjum fyrir ákveðna fjárhæð í hverjum mánuði á ákveðnum tíma.
 3. Strax og tryggðarviðskiptavinurinn hefur gert samning við A fær hann afhenta einhverja tiltekna vöru án endurgjalds. Valmöguleikar á vöru fara eftir því hversu háa fjárhæð viðskiptavinurinn hefur skuldbundið sig til að versla fyrir. Hér er því um eins konar staðgreiðslu-magnafslátt að ræða.
 4. A kaupir vöruna fyrir eigin reikning og afhendir tryggðarviðskiptavininum."

Þann 4. apríl 2001 óskaði ríkisskattstjóri eftir að afrit af drögum af tryggðarsamningi þeim er nefndur er í álitsbeiðni yrði lagður fram. Umbeðið afrit barst með faxi þann 6. s.m. Þá var haft samband við umboðsmann álitsbeiðanda símleiðis þann 18. apríl sl. og óskað eftir að afrit af samningi við væntanlega viðskiptamenn álitsbeiðanda yrðu lögð fram. Voru þau samningsdrög send á faxi samdægurs.

Forsendur og niðurstöður:

Eftirfarandi umfjöllun ríkisskattstjóra um álitsbeiðni felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Álitið byggir á þeim málavöxtum sem raktir hafa verið hér að framan og þeim forsendum sem að neðan eru raktar.

Rétt þykir að svara spurningum álitsbeiðanda þannig að fyrst er veitt svar við fyrstu spurningunni, svo þeirri þriðju og svo annarri og að lokum fjórðu.

 1. Getur ríkisskattstjóri staðfest að kaup á vörum til afhendingar til viðskiptavina sé frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 75/1981?

Í 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er að finna heimildarákvæði þar sem fram kemur að heimilt sé að draga frá atvinnurekstrartekjum rekstrarkostnað. Rekstarkostnaður eru þau gjöld sem á árinu ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Miðað við þá málavaxtalýsingu sem kemur fram í álitsbeiðni getur ríkisskattstjóri fallist á að vörur sem ætlaðar eru til afhendingar til viðskiptavina álitsbeiðanda séu rekstrarkostnaður í skilningi fyrrgreinds ákvæðis og þar með frádráttarbær enda sé verðmæti vöru eðlilegt miðað við tilefni sbr. grunnreglu 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

 1. Getur ríkisskattstjóri staðfest að félaginu beri ekki í þessu sambandi að afhenda skattstjóra launaskýrslu/launamiða skv. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981?

Í tilvitnuðu ákvæði segir: "Allir, sem hafa menn í þjónustu sinni og greiða þeim endurgjald fyrir starfa, þar með talin ágóðaþóknun, ökutækjastyrk, húsaleigustyrk og hvers konar önnur fríðindi og hlunnindi, eftirlaun, biðlaun og lífeyrir, skulu ótilkvaddir afhenda skattstjóra eða umboðsmanni hans skýrslu um greiðslur þessar ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Sama gildir um greiðslur til verktaka fyrir efni og vinnu. Ef framangreindra greiðslur eru inntar af hendi fyrir milligöngu annars aðila og sá, er unnið var fyrir, getur eigi látið umkrafðar upplýsingar í té, hvílir skýrslugjafarskyldan á milligönguaðilanum." Samkvæmt orðanna hljóðan tekur þetta ákvæði eingöngu til þeirra aðila sem hafa menn í sinni þjónustu og greiða endurgjald fyrir starf og þeirra sem kaupa þjónustu verktaka. Ríkisskattstjóri getur staðfest að álitsbeiðanda beri ekki að standa skil á launaskýrslu/launamiða vegna vara sem hann afhendir væntanlegum tryggðarviðskiptavinum.

 1. Getur ríkisskattstjóri í samræmi við framangreint staðfest að ekki verði litið á umrædda afhendingu sem hlunnindi í skilningi 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og því beri félaginu ekki að skila staðgreiðslu af þeirri afhendingu skv. lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda?

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum var komið á kerfi þar sem gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Forsenda þess að ríkisskattstjóri gefi út bindandi álit er að það liggi ljóst fyrir hver aðilinn er sem álitsbeiðnin varðar og að ráðstöfunin varði þennan tiltekna aðila. Í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum segir m.a. "Fyrir fram bindandi álit eru hins vegar annars eðlis en framangreind upplýsingagjöf og hafa víðtækari réttaráhrif. Af þeim sökum eru gerðar ríkar kröfur um form og efni þeirra." (leturbr. ríkisskattstjóra). Þá segir einnig: "Gert er ráð fyrir að allir skattaðilar geti óskað bindandi álits ríkisskattstjóra. Fyrirspurnin verður hins vegar að varða álitsbeiðanda sjálfan, þ.e. ekki er hægt að óska eftir afstöðu ríkisskattstjóra um ráðstafanir sem einhver annar hefur í hyggju að gera." (leturbr. ríkisskattstjóra). Sú spurning hvort að í afhendingu varanna felist skattskyld hlunnindi skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðar ekki skattalega hagsmuni álitsbeiðanda heldur þess aðila sem veitir vörunum viðtöku og nýtur þeirra. Þessum lið álitsbeiðnarinnar er því vísað frá.

 1. Getur ríkisskattstjóri jafnframt staðfest að afhending vara samkvæmt framansögðu teljist ekki að öðru leyti skattskyld afhending?"

Það er mat ríkisskattstjóra að fyrirspurn þessi sé hvorki nægilega afmörkuð né ljóst hvort eða að hvaða leiti hún varði skattalega hagsmuni álitsbeiðanda, sbr. svar ríkisskattstjóra við annarri spurningu álitsbeiðanda. Þessum hluta álitsbeiðnar er af þessum sökum vísað frá.

Bindandi álit ríkisskattstjóra:

 1. Kaup á vörum til afhendingar til viðskiptavina eins og nánar er lýst í álitsbeiðni er frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. þó þær skorður sem getur í 1. tölul. 52. gr. sömu laga.
 2. Álitsbeiðanda ber ekki að skila launaskýrslu/launamiða samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna afhendingar á vörum til tryggðarviðskiptavina eins og nánar er lýst í álitsbeiðni.
 3. Spurningu álitsbeiðanda þess efnis hvort afhending umræddra vara séu skattskyld hlunnindi í skilningi 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er vísað frá.
 4. Spurningu álitsbeiðanda þess efnis hvort afhending vara samkvæmt álitsbeiðni teljist ekki að öðru leyti skattskyld afhending er vísað frá.

Kæruréttur:

Þetta bindandi álit er gefið miðað við þær forsendur sem raktar hafa verið hér að framan og fram koma í beiðni og þeim gögnum sem ríkisskattstjóri kallaði eftir. Bindandi álit ríkisskattstjóra sætir kæru til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá afhendingardegi álits þessa (en álitið er ekki póstlagt), sbr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 1. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Ef kært er skal kæra send yfirskattanefnd, Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Kæra skal vera skrifleg og henni skal fylgja frumrit eða endurrit álits þessa. Ennfremur skal koma fram í kærunni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Kærunni skulu og fylgja þau gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum