Bindandi álit

Bindandi álit nr. 13/99

3.12.1999

3. desember 1999 nr. 13/99

Tilefni:
Með bréfi, dags. 8. nóvember 1999, en mótteknu hjá ríkisskattstjóra þann 18. nóvember 1999, er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit um skattskyldu einkahlutafélags sem álitsbeiðendur hafa í huga að stofna.

Málavextir:
Eftirfarandi málavaxtalýsing er byggð á þeim upplýsingum sem er að finna í beiðni yðar um bindandi álit.

Álitsbeiðendur munu hafa hug á því að stofna einkahlutafélag sem álitsbeiðendur kjósa að kalla Félag ehf. í bréfi sínu. Mun sami háttur verða hafður á í áliti þessu. Með álitsbeiðninni fylgdu drög að stofnsamningi Félags ehf., drög að stofnfundargerð Félags ehf. og drög að samþykktum Félags ehf.

Fram kemur í álitsbeiðninni að tilgangur stofnunar Félags ehf. sé sá einn að stunda líknarstarfsemi, sem fólgin verði í rekstri athvarfs fyrir börn og unglinga, rekstri fasteigna og annarri skyldri starfsemi í þágu almenningsheilla. Mun fyrirhugað að starfsemi félagsins verði fólgin í rekstri athvarfs fyrir börn og unglinga sem átt hafa við áfengis- og annars konar vímuefnavanda að stríða og að starfsemin verði í samvinnu við Barnaverndarstofu.

Gert er ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um það í stofnsamningi félagsins sem og samþykktum þess að tilgangur félagsins skuli vera líknarstarfsemi og að öllum þeim hagnaði sem til verður og heimilt er að ráðstafa verði einungis ráðstafað í samræmi við framangreindan tilgang félagsins. Þannig verði félaginu eigi ætlað að skapa stofnendum arð af hlutafjáreign sinni. Komi til félagsslita er gert ráð fyrir að öllum eignum félagsins verði varið til mannúðar og líknarstarfsemi sem líkastri þeirri sem tilgangur félagsins kveður á um.

Er þess farið á leit að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit sitt um það álitaefni hvort félagið komi til með að verða skattskylt til tekju- og eignarskatts samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.


Forsendur og niðurstöður:
Eftirfarandi umfjöllun ríkisskattstjóra um skattskyldu Félags ehf. felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum með þeim fyrirvörum sem að neðan greinir.

Eins og réttilega kemur fram í álitsbeiðninni kveður 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt á um að þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. og hér eiga heimili skuli eigi greiða tekjuskatt og eignarskatt, verji þeir hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafi það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum.

Ekki verður annað séð en að einkahlutafélag sem skráð er hér á landi með lögmæltum hætti geti fallið undir undanþágureglu 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, samkvæmt framansögðu.

Telur ríkisskattstjóri að starfsemi sem felst eingöngu í rekstri athvarfs fyrir börn og unglinga sem átt hafa við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða teljist vera starfsemi í þágu almenningsheilla.

Samkvæmt þeim gögnum sem lögð voru fram með álitsbeiðninni virðist sem fullnægt sé einnig þeim áskilnaði laga að það sé markað í samþykktum félags að hagnaði verði einungis varið til almenningsheilla.

Miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar telur ríkisskattstjóri því að Félag ehf. muni teljast vera undanþegið tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Rétt þykir þó að taka fram að álit þetta er gefið miðað við fyrirliggjandi forsendur. Rekstur félagsins er ekki hafinn og álitið er gefið miðað við það að rekstur félagsins, sé með eðlilegum hætti miðað við tilgang félagsins eins og hann er skilgreindur í samþykktum félagsins.

Þá skal og sérstaklega vakin athygli á ákvæði 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt 1. mgr. þess ákvæðis eru þeir sem undanþegnir eru skattskyldu á grundvelli 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, engu að síður skyldir til að skila skattframtali.


Bindandi álit ríkisskattstjóra:
Ríkisskattstjóri telur að einkahlutafélag sem álitsbeiðendur hyggjast stofna um rekstur athvarfs fyrir börn og unglinga sem átt hafa við vímuefnavandamál muni undanþegið skattskyldu miðað við fyrirliggjandi forsendur á grundvelli 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum