Bindandi álit

Bindandi álit nr. 9/99

7.10.1999

7. október 1999 nr. 9/99

Tilefni:
Með bréfi yðar, dags. 21. maí 1999, er óskað bindandi álits í samræmi við lög nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, að því er varðar skattalega stöðu umbjóðenda yðar miðað við þá málavexti sem raktir eru í bréfi yðar og gerð er grein fyrir hér að neðan

Með bréfi til yðar, dags. 22. júlí 1999 ákvað ríkisskattstjóri að synja að svo stöddu um að gefa bindandi álit um beiðni yðar, þar eð þá var til umfjöllunar í yfirskattanefnd kæra B, þar sem m.a. var tekist á um skattskyldu þeirra samtaka samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en svar við erindi yðar veltur að nokkru á því álitaefni.

Úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp þann 1. september sl. (nr. 454/1999) og var þar komist að þeirri niðurstöðu að miðað við þær forsendur sem málið byggði á og lagðar voru fyrir yfirskattanefnd til úrskurðar, var það niðurstaða úrskurðarins að starfsemi B væri eigi skattskyld til tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1996 samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í kjölfar þessa úrskurðar yfirskattanefndar rituðuð þér embættinu bréf og fóruð þér þess á leit að málið yrði að nýju tekið til meðferðar. Með hliðsjón af málavöxtum í máli þessu telur ríkisskattstjóri forsendur vera að lögum til þess að hann gefi bindandi álit sitt um skattalega stöðu umbjóðenda yðar eins og þér farið á leit í beiðni yðar.

Málavextir:
Í erindi yðar er talsverð umfjöllun um starfsemi B og telur ríkisskattstjóri ekki ástæðu að rekja þá umfjöllun hér, enda því gerð allgóð skil í tilvitnuðum úrskurði yfirskattanefndar. Verða því málavextir hér raktir að því marki sem það hefur þýðingu fyrir það álit sem óskað er eftir að ríkisskattstjóri gefi.

Fram kemur að fyrirhugað er að leggja niður F miðað við 31. desember 1999 og færa verkefni þess til B og eftir atvikum til búgreinafélaga. Eigin fé F verði ráðstafað í sjóð er verði í vörslu og umsjá B.

F starfar samkvæmt lögum nr. 99/1993, um verðlagningu og sölu á búvörum og eru verkefni þess skilgreind þar auk þess að gegna öðrum hlutverkum í þágu landbúnaðar eins og rakið er í beiðni yðar, dags. 21. maí 1999.

Sjóður sá sem ráðgert er að stofna skal eiga réttindi og bera ábyrgð á skuldbindingum F og bera ábyrgð á kröfum sem upp kunna að koma og tengjast starfsemi þess. Ráðgert er að helmingur af vaxtatekjum sjóðsins verði varið til framlaga til kostunar aukinnar starfsemi B. Hinum helmingi vaxtatekna verði síðan varið til framlaga til kostunar á aukinni starfsemi búgreinafélaga í landinu. Ráðgert er að höfuðstóll standi óbreyttur að raungildi nema annað sé ákveðið á búnaðarþingi.

Í því skyni að fyrir liggi afstaða skattyfirvalda um hver kunni að verða skattaleg áhrif þessara breytinga farið þér fram á að ríkisskattstjóri svari þremur spurningum:

  1. Munu framangreindar ráðstafanir, út af fyrir sig, á því ári sem þær koma fyrst til framkvæmda, leiða til álagningar eignar- eða tekjuskatts, þ.m.t. fjármagnstekjuskatts á annan hvorn umbjóðenda yðar?
  2. Munu framangreindar ráðstafanir, út af fyrir sig, þegar úthlutun hefst úr sjóðnum, leiða til álagningar eignar- eða tekjuskatts, þ.m.t. fjármagns-tekjuskatts á annan hvorn umbjóðenda yðar?
  3. Skiptir máli, í þessu sambandi, hvort sjóðurinn verður sjálfstæður lögaðili?

 
Bindandi álit ríkisskattstjóra:
Eftirfarandi eru svör ríkisskattstjóra við þeim spurningum sem settar eru fram í beiðni yðar, dags. 21. maí sl., og reifaðar eru hér að framan, og ber að líta á þau svör sem bindandi álit ríkisskattstjóra í samræmi við lög nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

  1. Ríkisskattstjóri lítur svo á að starfsemi F sé eigi skattskyld starfsemi samkvæmt 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Sú ráðstöfun að leggja niður F og fela öðrum aðilum þau verkefni sem ráð þetta hefur haft og stofna sérstakan sjóð um eigur ráðsins breytir í engu þeirri niðurstöðu. Að því er varðar fjármagnstekjuskatt sérstaklega, þá skal tekið fram að sú ráðstöfun að leggja niður F hefur í sjálfu sér ekki skattalega þýðingu að því er varðar þann skatt. F er skattskylt hvað varðar þann skatt og sú skattskylda fellur að sjálfsögðu niður leggist ráðið niður. Því verður ekki séð að ráðstafanir þessar hafi nein sérstök áhrif sem slíkar á skattalega stöðu F.
    Yfirskattanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að starfsemi B eins og henni var lýst í forsendum úrskurðar yfirskattanefndar, með þeim fyrirvörum sem þar eru lagðir, teljist ekki vera skattskyld starfsemi samkvæmt 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þær ráðstafanir sem felast í því að B taki að sér það hlutverk sem hið óskattskylda F hefur haft með höndum, geta að mati ríkisskattstjóra ekki falið í sér breytingar á þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar í téðum úrskurði yfirskattanefndar. Það er því mat ríkisskattstjóra að ráðstafanir þessar muni ekki sem slíkar fela í sér skattskyldu til tekju- og eignarskatts samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að því er varðar fjármagnstekjuskatt sérstaklega þá skal það tekið fram að B eins og aðrir óskattskyldir aðilar eru skattskyldir til þess skatts og þær ráðstafanir sem hér um ræðir breyta þar engu um. Ráðstafanir sem felast í stofnun sérstaks sjóðs um eignir F hafa ekki sérstakar skattalegar afleiðingar í þessu samhengi. Það skal þó tekið fram að ef sjóðurinn verður ekki sjálfstæður, heldur hluti af B, þá mun fjármagnstekjuskattur vegna tekna sjóðsins að sjálfsögðu skattleggjast þar. Ef sjóðurinn er á hinn bóginn sjálfstæður lögaðili þá mun fjármagnstekjuskattur reiknast á hann, en greiðslur úr honum mynda að sjálfsögðu ekki sérstakan skattstofn til tekjuskatts hjá óskattskyldum aðilum.
  2. Samkvæmt framansögðu, undir tölulið 1, munu úthlutanir úr sjóðnum ekki mynda sérstaklega stofna til álagningar skatta hjá óskattskyldum aðilum. Fjármagnstekjuskattur verður sem fyrr reiknaður af fjármagnstekjum óskattskyldra aðila, en tekið skal fram að ekki verður litið á ráðstöfun á tekjum úr sjóðnum miðað við þær forsendur sem raktar voru í málavaxtalýsingunni að framan sem fjármagnstekjur.
  3. Eins og rakið var í svari undir tölulið 1 hér að framan þá hefur það í sjálfu sér í þessu samhengi, miðað við fyrirliggjandi forsendur, eigi skattalega þýðingu hvort stofnaður er sérstakur lögaðili utan um sjóðinn, að öðru leyti en því að ef sjóðurinn er sérstakur lögaðili þá er hann skattskyldur til fjármagnstekjuskatts, en ella myndi sá skattur leggjast á eiganda sjóðsins að því gefnu að um skattskyldan aðila til fjármagnstekjuskatts sé að ræða, eins og B eru miðað við framansagt. Það skal og sérstök athygli vakin á því að ef sjóðurinn verður sjálfstæður lögaðili þá kann sú lagalega umgjörð sem sjóðnum er búin að skipta máli í skattalegu tilliti, þar sem ákvæði 6. tölul. 4. gr. vísar til 5. tölul. 2. gr. og kemur þar af leiðandi ekki til greina sem grundvöllur undanþágu frá skattskyldu að því er varðar félög er skattskyld eru samkvæmt 1.-4. tölul. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum