Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 1/09

29.4.2009

Ákvörðun varðandi beiðni um bindandi álit í skattamálum.

29. apríl 2009
Báf 01/09

Með bréfi dagsettu 23. mars 2009, móttekið hjá ríkisskattstjóra 21. apríl sama ár, óskaði A ehf. eftir að ríkisskattstjóri veitti bindandi álit vegna fyrirhugaðra ráðstafana B hf. Í beiðninni kemur eftirfarandi fram:

„Til A hefur leitað B hf., vegna fyrirhugaðs samnings af hálfu félagsins við íslenskt tryggingarfélag um sölu umbjóðanda okkar á farmtryggingum í innanlandsflutningi sem og í sjóflutningi á hans vegum. Umbjóðandi okkar telur ekki skýrt í gildandi lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt hvort honum sé heimil endursala trygginga án þess að hann innheimti virðisaukaskatt af tryggingaiðgjöldum eða hvort honum ber að innheimta virðisaukaskatt.

Myndi umbjóðandi minn hafa umboð til þess að bjóða viðskiptavinum sínum farmtryggingar fyrir hönd viðkomandi tryggingarfélags í samræmi við samning aðila þar að lútandi gegn greiðslu umboðslauna af seldum iðgjöldum.

Umbjóðandi minn telur mikinn hag af því að geta boðið viðskiptavinum félagsins þessa þjónustu með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.

Vísað er til ákvæða laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með síðari breytingum, sbr. ákvæði laga nr. 30/2004 og nr. 32/2005.

Ástæða þessarar fyrirspurnar umbjóðanda míns er dómur héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-342/2007, Auto Reykjavík hf. gegn íslenska ríkinu, þar sem því var velt upp hvort flutningafyrirtækjum væri stætt á því að selja vátryggingar án þess að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu. Í umræddum héraðsdómi komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að bílaleigu hafi borið að reikna virðisaukaskatt af heildarendurgjaldi hinnar seldu þjónustu, þ.m.t. þeirri þjónustu er fólst í kaupum á viðbótartryggingum á hinu leigða samkvæmt ákvörðun leigutaka.

Ágreiningur málsins laut að því hvort bílaleigunni Auto Reykjavík hf. hafi verið heimilt að halda utan skattverðs sölu á vátryggingum sem viðskiptavinum var boðið að kaupa, og hvort bílaleigur hefðu heimild til að selja vátryggingar án þess að innheimta virðisaukaskatt. Í þessu samhengi ber þó að taka sérstaklega fram að ekki var ágreiningur um að kostnaður vegna lögboðinna bifreiðatrygginga væri liður í skattverði til virðisaukaskatts samkvæmt 7. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Aðeins var deilt um innheimtu virðisaukaskatts af valkvæðum vátryggingum sem viðskiptavinum stóð til boða að kaupa.

Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt kemur sú meginregla fram að virðisaukaskatt skuli reikna af heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 7. gr. sömu laga eru talin upp ýmis gjöld og verðmæti sem teljast til skattverðs og er sú upptalning ekki tæmandi. Samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988 telst m.a. til skattverðsins umbúðakostnaður, sendingarkostnaður, vátryggingar og slíkur kostnaður sem er innifalinn í verði eða seljandi krefur kaupanda sérstaklega um.

Í máli þessu var það álit dómsins að sala hinna valkvæðu vátrygginga hafi verið í slíkum tengslum við starfsemi stefnanda að telja bæri kostnað vegna þeirra til heildarandvirðis hins selda, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, og skipti þá ekki máli þótt viðskiptavinurinn hafi sjálfur óskað eftir þjónustu stefnanda við kaup slíkra vátrygginga.

Samkvæmt 9. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er vátryggingastarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Í skattframkvæmd hefur undanþágan m.a. verið talin ná til sölu á tryggingum í umboðssölu fyrir tryggingafélög.

Í bílaleigunni fólst ekki vátryggingarstarfsemi og hafði leigan heldur ekki leyfi til að selja vátryggingar skv. lögum nr. 60/1994 um vátryggingarsamninga. Var ekki á það fallist að bílaleigunni hafi verið heimilt að undanþiggja virðisaukaskatt í þjónustu sinni við viðskiptavini við kaup á vátryggingum.

Tilhögun vátrygginga þegar kemur að farmflutningum hefur verið með áþekku móti og hjá bílaleigum, þ.e. fyrirtæki sem sjá um farmflutninga hafa ýmist selt eða haft milligöngu um sölu á farmtryggingum fyrir viðskiptavini sína. Hefur dómur héraðsdóms því vakið upp spurningar um lögmæti þeirrar tilhögunar. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Með vísan til ofanritaðs óskar umbjóðandi minn svara við því hvort heimilt sé í starfsemi hans, í samræmi við lög 60/1994 um vátryggingarsamninga, að undanþiggja virðisauka við sölu á vátryggingum þar sem ekki yrði um eiginlega vátryggingastarfsemi sé að ræða af hans hálfu.“

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda varði beiðni um slíkt álit "álitamál" er snertir álagningu skatta og gjalda. Í almennum athugasemdum við lagafrumvarp það er varð að lögum nr. 91/1998 segir: „Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga.“ Af þessum texta greinargerðarinnar má ráða að gert er ráð fyrir því að um sé að ræða óljós atriði, þ.e. atriði þar sem ekki liggur skýrt fyrir hvaða reglur gilda.

Í beiðni álitsbeiðanda kemur fram að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafi ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar. Af þessu tilefni skal tekið fram að Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm héraðsdóms með vísan til forsendna hans með dómi þann 16. október 2008, sbr. mál nr. 106/2008.

Ekki verður af beiðninni annað ráðið en að fyrirkomulag álitsbeiðanda við endursölu trygginga verði með sama eða sambærilegum hætti og fjallað var um í framangreindum dómi og er ekki öðru haldið fram af hálfu álitsbeiðanda. Í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur kemur eftirfarandi fram: „Stefnandi rekur ekki vátryggingastarfsemi og hefur ekki leyfi til að selja tryggingar samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994. Af þeirri ástæðu einni verður ekki á það fallist að stefnanda hafi verið heimilt að undanþiggja virðisaukaskatt í þjónustu sinni við viðskiptavini við kaup á tryggingum. Verður ekki séð að sú niðurstaða kunni að brjóta gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða markmiðum að baki samkeppnislaga nr. 8/1993, enda um allsendis óskylda starfsemi að ræða, annars vegar starfsemi bílaleigu og hins vegar vátryggingastarfsemi.“ Ekki verður séð að niðurstaða dóms héraðsdóms sé á nokkurn hátt óskýr eða gefi tilefni til vangaveltna um túlkun ákvæða 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda staðfesti Hæstiréttur Íslands dóminn með vísan til forsendna hans, eins og áður hefur komið fram.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir skýrt fordæmi frá Hæstarétti Íslands um það hvernig túlka beri 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Að þessu og öllu framangreindu virtu er það mat ríkisskattstjóra að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að gefa bindandi álit um það álitaefni sem hér er borið upp.

Með vísan til framangreinds er beiðni um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum