Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 2/07

28.12.2007

Verktaka sölumanna fasteignasala. Frávísun: Álitaefni varða ekki að álagningu skatta og gjalda.

Reykjavík, 28. desember 2007 Báf 02/07

Ákvörðun varðandi beiðni um bindandi álit í skattamálum

Tilefni:

Í bréfi dagsettu 3. október 2007, mótteknu 4. sama mánaðar, fer álitsbeiðandi fram á að ríkisskattstjóri láti, á grundvelli laga nr. 91/1988, um bindandi álit í skattamálum, uppi álit sitt um hvort verktaka sölumanna á fasteignasölu sé heimil í skattalegu tilliti.

Málavextir:

Forsögu beiðninnar og atvikum máls er lýst með eftirfarandi hætti:


„I. Almennt

.....

Almennt hafa fasteignasalar þann hátt á, að ráða starfsfólk til starfa þ.e. sem launþega en fram kemur í lögum nr. 99/2004, (lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa), að starfsmenn skuli ráðnir til starfa en það má sjá t.d. í c-lið. 1. mgr. 2. gr., 1. og 2. mgr. 5. gr. og 14. gr laganna. Í leiðbeiningarreglum sem eftirlitsnefnd Félags fasteignasala sendi til allra fasteignasala þann 9, júní 2005 kom fram að verktaka væri ekki heimil á fasteignasölum. Á grundvelli ákvæða laganna og fyrirmæla eftirlitsnefndar með fasteignasölum hafa langflestir fasteignasalar tekið upp launþegasamband og ráðið starfsfólk til starfa.

Í október 2006 sendi eftirlitsnefnd Félags fasteignasala frá sér breytingu frá fyrri niðurstöðu þ.e. að nú væri verktaka heimil, út frá neðangreindum atriðum:

Að lög nr. 99/2004 leggi ekki bann við því að fasteignasali hafi í þjónustu sinni verktaka að því gefnu að fullnægt sé öllum skilyrðum laganna er mæla fyrir um réttindi og skyldur fasteignasala, svo sem:

  1. að fasteignasali hafi í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjártjóns sem leiðir af gáleysi í störfum verktaka er starfar í þágu fasteignasala.
  2. að samningur verktaka og fasteignasala mæli fyrir um boðvald fasteignasala yfir verktaka líkt og um vinnusamning væri að ræða.
  3. að fyrir liggi yfirlýsing fasteignasala um að hann ábyrgist störf verktakans og beri bótaábyrgð á störfum hans, einnig umfram vátryggingafjárhæð

Þegar þessi niðurstaða lá fyrir sendi Félag fasteignasala eftir ábendingar frá nokkrum lögmönnum, öllum fasteignasölum tilkynningu þess efnis að þessi niðurstaða gæti gengið í berhögg við ákvæði skattalaga þar sem slíkt samningssamband gæti skoðast af skattyfirvöldum sem launþegasamband og gæti breyting á rekstrarformi yfir til verktöku leitt til endurákvörðunar skatta.

II. Niðurstaða yfirskattanefndar

Yfirskattanefnd komst að því með úrskurði sínum nr. 293/2004 að sölufulltrúi á fasteignasölu gæti starfað sem verktaki. Sá úrskurður féll í tíð eldri laga um fasteignasala þ.e. nr. 54/1997. Ný lög tóku gildi á árinu 2004 þ.e. nr. 99/2004, lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa þar sem verulegar breytingar voru gerðar og áttu m.a. að banna verktöku sem m.a. hefur komið fram frá þeim aðilum er sömdu lagafrumvarpið.

Í úrskurði yfirskattanefndar sem byggði eins og fyrr segir á eldri lögum um fasteignasala komu fram ýmis rök er bentu til launþegasambands en þó voru nokkur atriði nefnd sem bentu í gagnstæða átt. Má hér nefna þau helstu.

1. Að ekki lægi fyrir að almennt húsbóndavald væri til staðar yfir sölufulltrúum
Yfirskattanefnd taldi að sölufulltrúarnir nytu umtalsverðs sjálfstæðis í störfum sínum og hefðu engar fastar skyldur nema þær væru lögbundnar eða kæmu fram í samningnum. Þannig væri út frá fyrirliggjandi samningi og gögnum málsins ekki um almennt húsbóndavald yfir sölufulltrúum. Í dag er skýlaus krafa um að fasteignasali hafi húsbóndavald yfir verktaka og launþega sbr. kröfur Eftirlitsnefndar félags fasteignasala frá okt. 2006.

2. Að sölufulltrúar tryggðu sjálfir starfssemi sína
Í úrskurði yfirskattanefndar segir að sölufulltrúar tryggi sjálfir starfssemi sína en slíkt bendi til verktakasamnings. Fyrir slíku er ekki heimild í dag sbr. kröfur Eftirlitsnefndar félags fasteignasala nr. 1 og nr. 3.

3. Fjárhagsleg ábyrgð sölufólksins
Fram kom að fjárhagsleg ábyrgð væri hjá sölufólki og laun ákvörðuðust af sölu og einnig bæru starfsmennirnir einhvern kostnað við starf sitt.
Nokkuð var um að sölumenn gerðu sjálfir samninga við viðskiptavini um þóknanir, en slíkt er nú fortakslaust bannað skv. lögum og slíkir samningar eru gerðir við fasteignasalann en ekki viðkomandi sölumann, sbr. 9.gr.laga nr. 99/2004.

Það er fasteignasalinn sem ber alla ábyrgð á slíkum samningum sem og öllum öðrum samningum sem sölufulltrúar kunna að koma að, sbr. t.d. 3. mgr. 7. gr. laga nr 99/2004."

Sökum þeirra breytinga sem orðið hafa frá því að framangreindur úrskurður yfirskattanefndar frá árinu 2004 var kveðinn upp telur álitsbeiðandi mikilvægt að fá álit ríkisskattstjóra á því hvort honum sé heimilt að breyta rekstri fasteignasölu sinnar og gera sölufólk, sem nú starfi sem launþegar, að verktökum. Ennfremur kemur orðrétt fram:

„Ég vil að sjálfsögðu gera þetta með þeim hætti sem löglegur er, en fyrir liggja kröfur laga og eftirlitsnefndar sbr. hér að framan. Þannig hef ég í hyggju að selja starfsmönnum mínum aðgang að vinnuaðstöðu hér á starfsstöð fasteignasölunnar og þeir fái árangurstengdar greiðslur. Að sjálfsögðu mun ég hlíta þeim skilyrðum sem sett eru og koma fram hér að framan."

Álitaefni:

Álitsbeiðandi fer fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit sitt við eftirfarandi álitaefnum:

  1. „Hvort heimilt sé að breyta rekstrarformi á fasteignasölu minni þannig að tekin verði upp verktaka gagnvart sölumönnum/sölufulltrúum í stað launþegasambands í samræmi við framanritað.
  2. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2004 kemur fram að þeim einum sé heimilt að hafa milligöngu um kaup, sölu eða skipti á fasteignum eða skráningarskyldum skipum sem hafa til þess löggildingu. Leitað er svars við því hvort heimilt sé að selja skv. skattalögum aðgang verktaka að réttindum löggilta fasteignasalans en fyrir liggur að fasteignasalinn ber ábyrgð á öllum störfum starfsmanna sinna. Er í því skyni hægt að tala um að um sé að ræða útlagðan kostnað sölumanna við að fá að starfa í umboði fasteignasalans ?
  3. Ef verktaka er óheimil við þær aðstæður sem um er getið í fyrirspurn nr. 1, hvaða afleiðingar kann það að hafa út frá skattalögum?“

Forsendur og niðurstöður:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum. Í ákvæðinu er annars vegar gerður áskilnaður að um sé að ræða álitamál og hins vegar að álitamálið snúi að álagningu skatta og gjalda sem eru á valdsviði skattstjóra eða ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðarvald yfirskattanefndar. Í almennum athugasemdum við lagafrumvarp það er varð að lögum nr. 91/1998 segir: „Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga.“ Af þessum texta greinargerðarinnar má ráða að gert er ráð fyrir því að um sé að ræða óljós atriði, þ.e. atriði þar sem ekki liggur skýrt fyrir hvaða reglur gilda.

Í beiðni álitsbeiðanda er í fyrsta lagi spurt um hvort að heimilt sé að breyta rekstrarformi á fasteignasölu álitsbeiðanda þannig að tekin verði upp verktaka gagnvart sölumönnum/sölufulltrúum í stað launþegasambands. Spurningin varðar það hvort að fasteignasalan hafi frelsi til þess að ganga til samninga um verktöku við sölumenn og snýr þannig ekki að álitaefni er varðar álagningu skatta og gjalda. Ríkisskattstjóra er því eigi skylt að verða við beiðni álitsbeiðanda um útgáfu bindandi álits varðandi þetta álitaefni. Þá er spurning nr. þrjú í álitsbeiðni svo samofin þeirri fyrstu að eigi verður heldur gefið bindandi álit um það álitaefni.

Víkur þá að öðru álitaefni álitsbeiðanda sem sett er fram í tveimur liðum. Spurt er hvort „heimilt sé að selja samkvæmt skattalögum verktaka aðgang að réttindum löggilts fasteignasala“. Þetta álitaefni er sama marki brennt og fyrsta spurning álitsbeiðanda og varðar ekki álagningu skatta og gjalda. Ríkisskattstjóra er því eigi skylt að verða við beiðni álitsbeiðanda um útgáfu á bindandi áliti varðandi þetta álitaefni.

Þá spyr álitsbeiðandi í beinu framhaldi hvort kostnaður sölumanna við að fá að starfa í umboði fasteignasalans geti verið útlagður kostnaður. Ríkisskattstjóri skilur þessa spurningu álitsbeiðanda þannig að spurt sé hvort kaup sölumanns á aðgangi að réttindum löggilts fasteignasala geti talist frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi skattalaga. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit um álitaefni er varðar álitsbeiðanda verulegum hagsmunum. Ekki verður séð að það varði skattalega hagsmuni álitsbeiðanda hvort sölumenn sem kaupa aðgang að hans réttindum geti fært þann kostnað til frádráttar frá skattskyldum tekjum sem rekstrarkostnað. Ríkisskattstjóri gefur því ekki bindandi álit um þessa spurningu álitsbeiðanda.

Með vísan til framangreinds er beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Álitsorð:

Beiðni A ehf. um bindandi álit á því hvort verktaka sölumanna á fasteignasölu sé heimil í skattalegu tilliti er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum