Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 3/01

15.3.2001

Reykjavík, 15. mars 2001

Þann 20. febrúar 2001 móttók ríkisskattstjóri beiðni A ehf. um bindandi álit og hlaut beiðnin númerið ..... í bókum embættisins.

Samkvæmt álitsbeiðni óskar álitsbeiðandi bindandi álits ríkisskattstjóra á því;

  • hvernig beri að eignfæra keyptan stóðhest í skattframtali,
  • hvort stóðhestur sé veltufjármunur, fastafjármunur, hvorugt eða hvorutveggja,
  • hvort afskrifa megi stóðhest í skattskilum.

Málavöxtum er svo lýst í álitsbeiðni: "Fyrirspurn okkar varðar stóðhest sem félagið hefur keypt fyrir hálfa milljón króna. Ætlun félagsins er að eiga hest þennan í einhver ár, a.m.k. lengur en eitt ár. Ætlun félagsins er að gefa eigendum ræktunarhryssna kost á því að leiða undir hest þennan, gegn gjaldi. Kyngæði (gen) hestsins eru föl. Óheimilt er samkvæmt skattalögum að gjaldfæra í einu lagi, fjárfestingu sem þessa, þ.e. kr. 500.000. Okkur er kunnugt um annað félag (lögaðila), sem keypti stóðhest, eignfærði hann og afskrifaði og fékk bágt fyrir. Skattstjórinn í Reykjavík ritaði viðkomandi bréf og tilkynnti honum að gjaldfærð afskrift yrði ekki leyfð, þar sem stóðhestur væri ekki fyrnanleg eign, skv. 32. gr. laga nr. 75/1981." Í álitsbeiðni er og að finna tilgreiningar á ýmsum lagaákvæði og túlkunum álitsbeiðanda á þeim varðandi þau álitaefni sem sett eru fram í álitsbeiðni.

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda varði beiðni um slíkt álit "álitamál" er snertir álagningu skatta og gjalda. Í athugasemdum við lagafrumvarp er síðar varð að lögum nr. 91/1998 segir: "Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga." Af þessum texta greinargerðarinnar má berlega ráða að gert er ráð fyrir því að um sé að ræða óljós atriði, þ.e. atriði þar sem ekki er skýrt hvaða reglur gilda. Ríkisskattstjóri lítur svo á að í þeim tilvikum þegar fyrir liggur skýr afstaða skattyfirvalda um tiltekin atriði, hvort heldur er um að ræða úrskurð skattstjóra eða yfirskattanefndar, birtar reglur eða túlkanir ríkisskattstjóra, þá sé þar ekki um að ræða álitaefni sem gefið verði bindandi álit um samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Sú álitsbeiðni sem hér er til umfjöllunar, snýr að atriði þar sem skýr afstaða skattyfirvalda liggur þegar fyrir.

Í álitsbeiðni kemur fram að félagið hafi fest kaup á stóðhesti og óskað sé bindandi álits ríkisskattstjóra á skattalegri meðferð hestsins. Í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að ekki sé heimilt að óska eftir bindandi áliti um skattaleg áhrif ráðstafana sem þegar hefur verið ráðist í. Í greinargerð með lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998 segir varðandi þetta atriði: "Megintilgangur með lögfestingu frumvarps þessa er að koma á fót úrræði er þjóni hagsmunum þeirra sem þurfa að fá úr því skorið fyrir fram hvernig skattlagningu verði háttað undir nánar greindum kringumstæðum. Eðli máls samkvæmt verður því að óska álits áður en ráðstafanir eru gerðar. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að ákvörðun skattyfirvalda um skattlagningu beri að með venjulegum hætti, þ.e. við álagningu." Bindandi álit ríkisskattstjóra hafa það þannig að meginmarkmiði að fyrir liggi hvaða skattalegu áhrif ráðgerðar framkvæmdir eða aðgerðir hafa í för með sér. Í þeim tilvikum sem ráðstafanir hafa þegar verið gerðar brestur ríkisskattstjóra lagaheimildir til að gefa bindandi álit. Ákvarðanir skattyfirvalda um þegar gerðar ráðstafanir ber þannig almennt að taka við álagningu skattanna.

Með vísan til framangreinds er beiðni yðar um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ályktunarorð:

Álitsbeiðni nr..... um bindandi álit á því hvernig beri að eignfæra keyptan stóðhest í skattframtali, hvort stóðhestur sé veltu- eða fastafjármunur (hvorugt eða hvorutveggja) og hvort afskrifa megi stóðhest í skattskilum, er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum