Skiptingar

Skiptingar einkahlutafélaga fara eftir XIV kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, hér eftir ehfl. og XIV kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög, hér eftir hfl. 107. gr. a. ehfl. og 133. gr. hfl. heimila skiptingu og lúta skiptingar á félögum í grunnin sömu reglum og samrunar.

Við skiptingu taka fleiri en eitt einkahlutafélag eða hlutafélag við öllum eignum og skuldum gegn endurgjaldi til hluthafa félagsins sem skipt er. Hluthafafundur getur með sama meirihluta ákveðið skiptingu þannig að eitt eða fleiri félög taki við hluta af eignum og skuldum.

Hugtaksskilyrði er að hluthafar í skipta félaginu fái endurgjald fyrir hluti sína. Meginreglan er sú að hluthafar láta af hendi hluti í skipta félaginu og fá í staðinn hluti í viðtökufélaginu.

Framkvæmd skiptingar er í tveimur skrefum. Fyrst er tilkynnt til fyrirtækjaskrár um fyrirhugaða skiptingu. Fyrirtækjaskrá birtir þá tilkynningu í lögbirtingablaði um móttöku gagna og hvort skiptingin komi til með að rýra hag lánardrottna. Í fyrsta lagi mánuði, og síðasta lagi 4 mánuðum, eftir birtingu í lögbirtingablaði er hægt að halda hluthafafundi þar sem skiptingin er endanlega staðfest. Tilkynna skal fyrirtækjaskrá um lok skiptingar innan tveggja vikna frá því að réttaráhrif skiptingarinnar koma til.

Félög sem stofnuð eru við skiptingu eru ekki skráð fyrr en skiptingu er lokið.

Gögn sem þarf að skila inn til fyrirtækjaskrár eru eftirfarandi:

  • Tilkynning um fyrirhugaðan skiptingu.
  • Skiptingaráætlun sbr. 95. gr. ehfl eða 120. gr. hfl.
  • Greinargerð stjórna um skiptinguna sbr. 96. gr. ehfl. eða 121. gr. hfl.
  • Skýrsla endurskoðanda um skiptinguna sbr. 97. gr. ehfl. eða 122. gr. hfl.
  • Yfirlýsing endurskoðanda um hvort skiptingin muni rýra hag lánardrottna sbr. 4. mgr. 97. gr. ehfl. eða 4. mgr. 122. gr. hfl.
  • Skiptingarefnahagsreikningur sbr. 2. mgr. 96. gr. ehfl. eða 2. mgr. 121. gr. hfl.
  • Skýrsla stjórnar sbr. 2. mgr. 5. gr. ehfl. eða sérfræðiskýrsla sbr. 6, 7 og 8. gr. hfl.

Uppgjörsdagur má ekki vera meira en 6 mánuðum fyrir undirritun skiptingaráætlunar. Skila þarf skiptingaráætlun til fyrirtækjaskrár eigi síðar en mánuði eftir undirritun.

Þegar fyrirtækjaskrá hefur móttekið skiptingaráætlun og yfirlýsingu endurskoðanda er birt tilkynning í lögbirtingablaði um fyrirhugaða skiptingu.

Í fyrsta lagi mánuði og síðasta lagi 4 mánuðum eftir birtingu tilkynningar er hægt að halda fundi til staðfestingar á skiptingunni.

Hluthafafund þarf til að staðfesta skiptingu enda ávallt breyting á samþykktum félaganna vegna hlutafjárbreytinga.

Tilkynna þarf um lok skiptingar innan mánaðar frá því að réttaráhrif skiptingarinnar koma til. Sé ekki tilkynnt um lok skiptingar innan tímamarka telst skiptingin niður fallin.

Gögn sem þarf að skila inn til fyrirtækjaskrár við lok skiptingar eru eftirfarandi:

  • Tilkynning um lok skiptingar sbr. 103 gr. ehfl. eða 128. gr. hfl.
  • Afrit af fundargerðum þeirra hluthafafunda sem staðfestu skiptinguna.
  • Nýjar samþykktir félaganna.
  • Sé nýtt félag stofnað við skiptingu þarf að skila inn stofngögnum.

 Ítarefni

 Hvar finn ég reglurnar?

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum