Fréttir og tilkynningar


Áramótabreytingar 2021/2022 – Tollskrárbreytingar, gjaldabreytingar o.fl.

30.12.2021

Um áramótin 2021-2022 taka gildi nokkrar breytingar á lögum er varða tollamál og innflutning.

Fyrst ber að nefna að þann 1. janúar 2022 taka gildi breytingar á íslensku tollskránni vegna reglubundinna breytinga sem eiga sér stað á fimm ára fresti samkvæmt samþykkt Alþjóðatollastofnunarinnar á hinni samræmdu alþjóðlegu tollskrá. Breytingarnar nú eru nokkuð viðamiklar og ná yfir fjölbreytt vörusvið en nánar má kynna sér efni tollskrárbreytinganna í frétt á vef Skattsins.

Nokkrar gjaldabreytingar verða á árinu 2022 en með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022 breytast m.a. fjárhæðir áfengis- og tóbaksgjalda, úrvinnslugjalda og umhverfis- og auðlindaskatta. Nánari útlistun á gjaldabreytingum o.fl. má nálgast á frétt á vef Skattsins.

Með lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (gjalddagar, refsinæmi o.fl.) eru gerðar ýmsar smávægilegar breytingar á ýmsum ákvæðum varðandi tollamál og innflutning. Losunarviðmið 3. og 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 breytast í þeim tilvikum þegar skráning losunar hefur átt sér stað samkvæmt bæði evrópsku aksturslotunni (e. New European Driving Cycle/NEDC) og samræmdu prófunaraðferðinni (e. Worldwide Harmonized Light Vehicles Test Procedure/WLTP. Þegar svo ber undir skal eingöngu líta til skráningar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni en ekki evrópsku aksturslotunni. Samhliða eru breytingar á viðmiði gramma og hlutfallstölum, í samræmi við þær reglur sem gilda um losun samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Rafknúnar flugvélar verða undanþegnar virðisaukaskatti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum ásamt því að tímabundin lækkun á skráðri losun húsbíla framlengist um eitt ár. Loks fela lögin í sér breytingar á búvörulögum sem hafa þau áhrif að lengt verður það tímabil innan ársins 2022 sem afmarkar lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis, m.a. spergilkál og blómkál.

Þá eru tvö bráðabirgðaákvæði sem breytast um áramótin. Fyrst ber að nefna að XVI. bráðabirgðaákvæði við tollalög nr. 88/2005 rennur út um áramótin og því ber tollyfirvöldum að innheimta tollafgreiðslugjald skv. 1. tl. 1. mgr. 195. gr. vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma frá og með 1. janúar 2022. Einnig lækka tímabundnar ívilnanir vegna innflutnings tengiltvinnbifreiða úr 960.000 kr. niður í 480.000 kr. um áramótin, sbr. XXIV. bráðabirgðaákvæði við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Vakin er sérstök athygli á því að ívilnun á tengiltvinnbifreiðar líður undir lok þegar 15.000 slíkar bifreiðar hafa hlotið slíka ívilnun en sá fjöldi er nú kominn í tæplega 14.000 bifreiðar. Skatturinn uppfærir reglulega stöðuna á innflutningi á tengiltvinnbifreiðum til Íslands á heimasíðu sinni.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum