Fréttir og tilkynningar


Breytingar á skráningu tollafgreiðslugengis 1. júlí 2020 - Vikugengi

24.6.2020

Reglur um gildistíma tollafgreiðslugengis sem nota skal við tollafgreiðslu tollskýrslu vörusendingar:

Frá og með 1. júlí 2020 gildir, skv. lögum nr. 58/2020 um breytingu á tollalögum, eftirfarandi við tollafgreiðslu inn- og útfluttra vara: Við tollafgreiðslu sendinga á degi hverjum skal ákvörðun tollverðs í tollskýrslum byggð á tollafgreiðslugengi eins og opinbert viðmiðunargengi er skráð af Seðlabanka Íslands síðasta mánudag á undan. Þetta merkir að gengið sem Seðlabanki skráir á hverjum mánudegi gildir frá og með þriðjudeginum eftir og til og með næsta mánudegi. Dæmi: gengi Seðlabanka á mánudegi gildir frá og með þriðjudegi og til miðnættis næsta mánudag. Frídagar virka á eftirfarandi hátt: Þegar helgidag eða almennan frídag ber upp á mánudag skal miða tollafgreiðslugengi við opinbert viðmiðunargengi næsta virka dags á undan.

Þ.e. ákvörðun tollafgreiðslugengis verður miðuð við vikugengi í stað daggengis sem komið var á í upphafi árs 2008.

Ábending: Frá og með 1. júlí 2020 og til og með 6. júlí 2020 skal því miða við opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka skráð mánudaginn 29. júní 2020.

Sérregla um útflutning: Sömu reglur gilda og um innflutning nema ekki skal nota nýrra gengi en í gildi er á brottfarardegi flutningsfars ef tollskýrsla er gerð og tollafgreidd eftir brottfarardag; þetta er sama regla og var í gildi fyrir 1. júlí. Um hraðsendingar (HS sendingar) og bráðabirgðatollafgreiðslu inn- og útflutnings gilda að öðru leyti sömu reglur og giltu fyrir 1. júlí.

Hægt er að sækja gengistöflur (XML) úr kerfum Skattsins til innlesturs inn í tollskýrslugerðarhugbúnað tollmiðlara, innflytjenda og útflytjenda á vefsíðunni: Tollgengi - XML gögn.

Mögulegt er að sækja gengi dagsins og gengi aftur í tímann, en ekki er mögulegt að sækja gengi fram í tímann.

Ofangreind breyting hefur ekki áhrif á innlestur xml-töflu í hugbúnað - tollgengi sótt t.d. á föstudegi sækir gengistöfluna sem tók gildi þriðjudaginn á undan.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum