Fréttir og tilkynningar


Heimild til endurgreiðslu VSK vegna kaupa á hleðslustöðvum fellur úr gildi

15.12.2023

Vakin er athygli á að um næstu áramót mun, að öllu óbreyttu, falla úr gildi heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á hleðslustöðvum fyrir bifreiðar.

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri vekja athygli á því að um næstu áramót fellur úr gildi heimild til endurgreiðslna virðisaukaskatts vegna kaupa á hleðslustöðvum. Sé reikningur vegna kaupa á hleðslustöð ekki gefinn út fyrir lok þessa árs, eða í síðasta lagi þann 31. desember 2023, er ekki veitt endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna kaupanna.

Endurgreiðsla VSK vegna uppsetningar á hleðslustöð lækkar

Virðisaukaskattur vegna vinnu við uppsetningu hleðslustöðva í eða við íbúðarhúsnæði verður áfram endurgreiddur. Um þá endurgreiðslu gilda sömu skilyrði og gilda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við byggingu, endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis. 

Endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við uppsetningu á hleðslustöð verður því frá áramótum 35% en ekki 100% eins og verið hefur.

Enn hægt að sækja um endurgreiðslu vegna eldri tímabila

Áfram verður hægt að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa og uppsetningar á hleðslustöðvum á tímabilinu 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023. Endurgreiðsla vegna þess tímabils verður áfram 100%.

Nánari upplýsingar um endurgreiðslu virðisaukaskatts


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum