Fréttir og tilkynningar


Greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti

5.6.2020

Nýlega voru samþykkt á Alþingi lög um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti (óbirt lög/mál nr. 811).

Samkvæmt lögunum er markmið þeirra að tryggja réttindi launafólks og tryggja þeim atvinnurekendum stuðning sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast. Til þess að atvinnurekendur geti óskað eftir umræddum stuðningi úr ríkissjóði þurfa þeir að uppfylla tiltekin skilyrði, m.a. um að rekstrartekjur hafi lækkað a.m.k. um 75% á ákveðnu tímabili með hliðsjón af tekjum á fyrri tímabilum.

Stuðningurinn getur að hámarki numið 85% af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti, miðað við ráðningarkjör hans 1. maí 2020, þó að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa og að hámarki 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir hlutastarf. Umsókn um stuðning skal skila mánaðarlega til Skattsins fyrir næstliðið launatímabil og eigi síðar en 20. hvers mánaðar. 

Umsókn þessi er ekki tilbúin en verið er að vinna að tæknilegri útfærslu á henni.

Að gefnu tilefni er rétt að benda á að umræddur stuðningur breytir engu um skyldur atvinnurekanda til greiðslu launa, staðgreiðslu launamanna og launatengdra gjalda. Stuðningurinn verður ekki ákvarðaður fyrr en staðin hafa verið skil á staðgreiðsluskilagrein og staðgreiðslu launamanna vegna þess mánaðar sem sótt er um fyrir. Frestur á greiðslum samkvæmt lögum nr. 25/2020, um breytingu á lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, teljast fullnægjandi skil á staðgreiðslu.  

Upplýsingar um fleiri úrræði fyrir atvinnurekendur vegna heimsfaraldurs kórónuveiru


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum