Fréttir og tilkynningar


Úrskurður yfirskattanefndar um fjármagnstekjuskatt

4.12.2012

Hinn 28. nóvember sl. kvað yfirskattanefnd upp þrjá úrskurði sem fjalla um skattlagningu fjármagnstekna sem innleystar höfðu verið á árinu 2010 en áfallið (áunnist) að hluta á fyrri árum þegar gildandi fjármagnstekjuskattshlutfall var annað.

Fjármagnstekjuskattshlutfall var 10%  frá 1. janúar 1997 til og með 30. júní 2009 , 15% á síðari helmingi ársins 2009 og loks 18% á innlausnarárinu 2010. Niðurstaða yfirskattanefndar var að greind skatthlutföll skyldu  gilda eftir því sem vextir féllu til á framangreindum tímabilum við álagningu 2011. Hefur yfirskattanefnd birt einn af þessum úrskurðum á vefsíðu sinni, yskn.is og er hann nr. 586/2012. Ríkisskattstjóri hefur nú til athugunar hvernig bregðast þurfi við þessum úrskurðum, m.a. hvort taka þurfi upp álagningu fjármagnstekjuskatts samkvæmt skattframtölum 2011 og 2012 að því er varðar vaxtatekjur af kröfum, s.s. spariskírteinum ríkissjóðs, sem áunnist hafa á mörgum árum. Að lokinni þeirri athugun verður gerð grein fyrir framhaldi málsins á vefsíðu embættisins. Athygli er vakin á því að úrskurðir yfirskattanefndar staðfesta óbreytta framkvæmd á skattlagningu fjármagnstekna vegna hlutdeildarskírteina, þ.e. að við skattlagningu á ávinningi af slíkum viðskiptum skuli miða við gildandi skatthlutfall þegar sala þeirra fer fram.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum