Fréttir og tilkynningar


Skilorðsbundið fangelsi og 53 milljónir króna sekt vegna skila á röngum skattframtölum og peningaþvætti

9.2.2021

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann til að greiða 53 milljón króna sekt og í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna meiri háttar brot gegn skattalögum.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna 2014 til og með 2017 og þannig vanframtalið tekjur sínar um 18 milljóna króna. Ákærði játaði sök að mestu hvað varðar að hafa vanframtalið tekjur sínar en taldi að lækka ætti fjárhæð vanframtalinn tekna hans þar sem hluti af greiðslum úr félaginu hans hefðu verið dagpeningar og arður. Héraðsdómur féllst ekki á að lækka vanframtaldar tekjur með vísan til þess að ekkert hefði komið fram í málinu sem gæti leitt til lækkunar. Þá krafðist ákærði sýknu er varðaði ákæruliðinn að hafa nýtt ávinninginn af brotunum í eigin þágu, þ.e. peningaþvætti, en til vara vægustu refsingar sem lög heimiluðu, með vísan til þess að 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, tæmdi sök gagnvart 1. og 2. mgr. 264. gr. laganna. Taldi ákærði að 264. gr. almennra hegningarlaga ætti við þegar uppruni fjár væri falinn en umræddar greiðslur til hans hafi verið færðar í bókhaldi í félaginu í hans eigu og því hafi uppruni fjármunanna ekki verið falinn. Þar sem ekki hefði verið til staðar leynd og þar sem ásetning hefði skort hjá honum taldi hann að ekki hefði verið brotið gegn ákvæði 264. gr. almennra hegningarlaga. Héraðsdómur féllst ekki á framangreind rök ákærða og sakfelldi hann fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Maðurinn var því sakfelldur bæði fyrir brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti.

Dómur héraðsdóms Reykjaness


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum